Fyrirtækið Sæbýli í Grindavík og HS Orka hafa undirritað viljayfirlýsingu um sæeyrnaeldi í Auðlindagarði HS Orku, að því er kemur fram í tilkynningu. Sæbýli hefur á þessu ári verið að byggja upp ungviðaeldisstöð í Grindavík sem byggir hlýsjávareldi sitt á jarðvarma og orku frá virkjun HS Orku við Svartsengi.

Fyrirtækið hefur undanfarið rekið klakstöð í Grindavík til að rækta upp ungviði en hyggst byggja upp áframeldi í Auðlindagarðinum þar sem það hyggst nýta græna raforku og varma á Reykjanesi. Áform Sæbýlis eru í fyrstu að byggja upp 200 tonna eldi sem svo er mögulegt að fimmfalda á næstu 10 árum. Sæeyrnastofninn sem ræktaður er má rekja til Japans en í Asíu er þessi skelfiskur sagður eftirsótt matvæli og hefur Sæbýli í hyggju að flytja vöruna á erlenda markaði.

Sæbýli er eldisfyrirtæki sem hefur á síðastliðnum 15 árum þróað eigin klakstofn, tækni og framleiðsluaðferð við eldi á sæeyrum á Íslandi. Uppsetning eldisins er einstök á heimsvísu og sú fyrsta sinnar tegundar en hún byggir á lóðréttu hillukerfi og vatnsendurnýtingu.

Viðskiptablaðið sagði frá því í vor þegar Sæbýli lauk 374 milljóna króna hlutafjáraukningu. Eyrir sprotar eru stærsti hluthafi fyrirtækisins

„Sæeyru sem á ensku kallast „abalone“ eru í raun sæsniglar og eru ein verðmætasta eldistegund í heimi sem með nýtingu einstakra auðlinda á Íslandi er mögulegt að rækta með hlýsjávareldi hér á landi,“ segir í fréttatilkynningu.

Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis:

„Einstakar náttúruauðlindir á Íslandi með jarðvarma, hreinum borholusjó og grænni raforku gerir Sæbýli í samvinnu við HS Orku mögulegt að þróa umhverfisvænt skelræktarverkefni. Bæði félögin leggja áherslu á umhverfisvænt hringrásarkerfi og erum við því mjög ánægð hjá Sæbýli að ná þessum áfanga í uppbyggingu félagsins.“

Ásgeir Guðnason, stofnandi og framkvæmdastjóri Sæbýlis:

„Ýmsir velta fyrir sér hvort það taki mörg ár að hefja eldi á nýrri eldistegund og einfalda svarið er „Já!“ Grunnurinn snýr að byggja upp klakstofn og við höfum náð þeim áfanga og lögðum því í það verkefni á árinu að byggja ungviðaeldisstöð í Grindavík. Þessi viljayfirlýsing með HS Orku tekur okkur fleiri skref áfram í því markmiði að byggja upp einstakt eldi á verðmætustu eldistegund í heimi hér á Íslandi.“