Rekstur RARIK samstæðunnar gekk ágætlega á árinu 2021, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Ekki hafi verið eins mikið um tjón á dreifikerfinu vegna veðurs eins og verið hafði tvö árin þar á undan og flæði raforku um dreifikerfi samstæðunnar hafi aukist frá fyrra ári. Hins vegar hafi orkusala dótturfélagsins Orkusölunnar minnkað, bæði vegna vaxandi samkeppni, en einnig vegna minni eigin framleiðslu.

Heildarfjárfesting RARIK árið 2021 í endurnýjun og aukningu stofn- og dreifikerfisins nam 4,3 milljörðum króna sem er svipað og árið á undan. Þar af var kostnaður við að endurnýja loftlínukerfi í dreifbýli með jarðstrengjum og jarðspennistöðvum um 1,7 milljarður króna og kostnaður við nýjar heimtaugar og til að mæta auknu álagi rúmar 800 milljónir króna. Fjárfestingar í dreifikerfi raforku voru minni en árið áður, en meiri en í langtímaáætlunum vegna flýtiverkefna sem studd eru af stjórnvöldum. Fjárfestingar í stofnkerfi voru minni en gert var ráð fyrir í áætlunum vegna tafa við leyfisveitingar og afgreiðslu á erlendu efni. Fjárfest var í hitaveitum í samræmi við áætlanir,“ segir í fréttatilkynningu.

Þar segir jafnframt að afkoma RARIK fyrir fjármagnsliði hafi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en fjármagnsliðir hærri. Rekstrarhagnaður ársins 2021 var 2,1 milljarðar króna sem er tæp 13% af veltu ársins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var um 34% sem hlutfall af veltu, eða 5,6 milljarðar króna. Sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19 eru sögð hafa haft talsverð áhrif á skipulag vinnu en fjárhaglegu áhrifin hafi ekki verið mikil.

Heildareignir RARIK í lok árs 2021 námu tæpum 83.5 milljörðum króna og jukust um rúma 4,6 milljarða á milli ára. Heildarskuldir námu 29,8 milljörðum króna og hækkuðu um tæpar 700 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var rúmir 53,6 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 64,3% samanborið við 63,1% í árslok 2020.

Á aðalfundi var samþykkt að greiða 310 milljónir króna í arð til Ríkissjóðs Íslands, sem er eigandi RARIK, vegna ársins 2020. Á fundinum var stjórn félagsins einnig kjörinn en hana skipa: Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Thomas Möller og Valgerður Gunnarsdóttir.