Skatturinn tilkynnti Danól, dótturfélagi Ölgerðarinnar, í mars um endurákvörðun tollgæslu vegna innflutnings á jurtaostum á árunum 2019-2020, að fjárhæð 151 milljón króna að viðbættu 50% álagi og dráttarvöxtum. Danól hefur lækkað eigið fé um 227 milljónir króna eða sem nemur endurálagningunni með álagi vegna áranna 2019 og 2020.
Danól hefur mótmælt endurálagningunni með andmælabréfi til Skattsins, að því er kemur fram í ársreikningi Ölgerðarinnar.
Skatturinn vísaði í dóm Landsréttar sem féll í ferbrúar þar sem staðfest var niðurstaða Héraðsdóms hvað varðaði túlkun á athugasemd við 4. kafla tollskrár er undanskildi vörur fengnar úr mjólk þar sem einum eða fleiri náttúrulegum þáttum hennar, t.d. mjólkurfitu, væri skipt út fyrir aðrar þætti, svo sem jurtafitu.
Hélt Danól að nægjanlegt væri að bæta við jurtaolíu til að falla í hagstæðari tollflokk. Héraðsdómur taldi að samkvæmt venjulegum málskilningi fæli það að skipta út einhverju í sér að eitthvað væri fjarlægt og annað sett í staðinn. Það væri því ekki nóg að bæta við jurtaolíu enda væri mjólkurfitan enn til staðar einungis í minni hlutföllum.