Um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því að fyrsti hópur MBA-nema hóf nám við Háskóla Íslands. Frá þeim tíma hafa yfir 660 einstaklingar brautskráðst með MBA-gráðu og tekið með sér víðtæka þekkingu og ómetanlega reynslu sem nýtist í íslensku atvinnulífi.

Við ræddum við Brynhildi L. Björnsdóttur, forstöðukonu Executive MBA, um hvað geri námið einstakt og hvers vegna fleiri og fleiri stjórnendur kjósa að leggja í þessa krefjandi en lærdómsríku vegferð.

Sérstaðan liggur í forystu, tengslum og íslensku samhengi

„Við leggjum áherslu á að þjálfa leiðtoga ekki bara stjórnendur. Námið sameinar persónulegan vöxt, leiðtogahugsun og djúpan skilning á viðskiptum, með mikilli áherslu á sjálfbærni og stafræna þróun“ segir Brynhildur.

Hún bætir við að kennt sé að mestu á íslensku, þar sem innihaldsríkar samræður skipti miklu máli og séu einfaldlega bestar á móðurmáli nemenda.

Kennslan fer fram í staðnámi aðra hverja helgi, á föstudögum og laugardögum kl. 9–17. „Skipulagið hentar vel fólki sem sinnir ábyrgðarhlutverki, vill samræma nám og starf og tekur markviss skref í sinni starfsþróun.“

Námið fer fram í aðstöðu sem endurspeglar fagmennsku

„Við erum afar stolt af aðstöðunni sem MBA-nemendur hafa aðgang að,“ segir Brynhildur. „Kennslan fer fram í sérhannaðri MBA-stofu á Háskólatorgi. Jafnframt hafa nemendur aðgang að Kjarval og fundarrýmum þar sem og kaffistofunni okkar í Gimli sem eingöngu MBA-nemendur hafa aðgang að og nýtist hún vel til umræðna og tengslamyndunar utan formlegrar kennslu.“

Ráð frá stjórnarformanni sem öll virðast hunsa

Ásta Dís Óladóttir, prófessor og stjórnarformaður námsins, byrjar hvert einasta misseri á að veita nýjum hópi góð ráð:

„Ekki skipta um vinnu eða húsnæði meðan á náminu stendur.“ En eins og Brynhildur bendir á með bros á vör: „Samt gera ótrúlega margir annað hvort eða bæði!“

Alþjóðleg sýn og sterk tengslanet

Námið er vottað af hinum virtu AMBA-samtökum og stendur undir alþjóðlegum kröfum um gæði og fagmennsku í stjórnendamenntun. Þá fara nemendur í námsferð til IESE Business School í Barcelona, þar sem þau taka þátt í námskeiðinu Listin að leiða (The Art of Leadership).

„Þar fá þau innsýn í leiðtogahlutverkið í alþjóðlegu samhengi og mynda tengsl sem nýtast um alla ævi,“ segir Brynhildur.

Tenging við atvinnulífið í kennslustofunni og utan hennar

Yfir 60 íslenskir stjórnendur, frumkvöðlar og sérfræðingar tóku þátt í kennslu og gestafyrirlestrum síðasta kennsluár. Þau koma beint inn í námið með dæmi og áskoranir úr atvinnulífinu og styrkja tenginguna milli fræða og framkvæmdar. Þá bjóða fyrirtæki nemendum í heimsóknir og taka þátt í samstarfsverkefnum sem nýtast báðum aðilum.

Nám sem líður hratt og erfitt er að kveðja

Námið tekur tvö ár en mörgum finnst það líða á svipstundu. Í hverjum útskriftarhópi heyrist sama setningin:

„Erum við virkilega að klára? Mér finnst við rétt að byrja!'“ segir Brynhildur. „Tengslin verða svo sterk að margir hópar halda áfram að hittast reglulega eftir útskrift og mynda sitt eigið tengslanet.“

Framtíðaráhersla: Gervigreind og stjórnarseta

Tvö nýleg námskeið sýna þróunina í náminu: „Gervigreind og leiðtoginn“ sem hlaut mikið lof frá erlendum vottunaraðilum og fjallar um ábyrgð, siðferði og möguleika gervigreindar í stjórnunarstörfum og „Viltu taka sætið?“ sem fjallar um stjórnarsetu og er unnið með sérfræðingum frá Deloitte, kennurum við Viðskiptafræðideild og reynsluboltum úr stjórnum íslenskra fyrirtækja. Þetta námskeið er opið fyrir MBA HÍ Alumni en aðeins 10 pláss eru í boði.

Umsóknarfrestur til 5. júní

Umsóknarferlið snýst ekki eingöngu um prófgráður heldur líka um starfsreynslu, framtíðarsýn og vilja til að vaxa sem leiðtogi. Tekið er við umsóknum til 5. júní á www.mba.is. Viðtöl eru hluti af ferlinu, þar sem markmið umsækjanda eru skoðuð í samhengi við gildi námsins.

Er kominn tími á nýja áskorun?

„Ef þú finnur að þú ert tilbúin(n) að stíga næsta skref og vilt styrkja þig sem leiðtoga þá er núna rétti tíminn,“ segir Brynhildur að lokum. „Við hvetjum áhugasama til að mæta á kynningarfundi, kynnast andrúmsloftinu í MBA-stofunni og ræða við okkur eða núverandi nemendur. Þetta er samfélag sem heldur áfram að gefa löngu eftir að brautskráningu lýkur.“

Næsti kynningarfundur verður þriðjudaginn 27. maí kl. 17.15 í stofu HT-101 í Gimli.