Tekjur BioEffect jukust námu 2.292 milljónum króna árið 2023 og jukust um 25% frá fyrra ári. Greint er frá rekstrarniðurstöðu síðasta árs í fréttatilkynningu. Húðvörufyrirtækið segir rekstrarárið 2023 hafa sýnt góðan bata eftir þrjú erfið Covid-ár.
EBITDA, framlegð frá rekstri árið 2023, var 136 milljónir króna en 63 milljónir árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 40 milljónum í samanburði við 78 milljónir árið áður.
Húðvörur félagsins fást um allan heim, eða samtals í 21 landi og sýndu flestir markaðir góðan vöxt, en þó var vöxturinn mestur í Bandaríkjunum, Kanada og Kína. BioEffect rekur markaði sína á Íslandi, í Bandaríkjunum og Bretlandi með eigin teymi en aðrir markaðir eru reknir í samstarfi við samtals 15 dreifiaðila í 21 landi.
„Vísindi og virkni er grunnurinn að velgengni BioEffect, en sérstaða vörulínunnar byggir á vaxtaþáttum sem framleiddir eru með aðferðum plöntu-líftækni og er alíslenskt hugvit og þróun.“
Hjá BioEffect starfa 55 starfsmenn og fer öll þróun og framleiðsla húðvörulínunnar fram á Íslandi.
Stjórn félagsins helst óbreytt frá fyrra starfsári, en í stjórn sitja Sigríður Elín Sigfúsdóttir stjórnarformaður, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Guðbjarni Eggertsson, Sigtryggur Hilmarson, Knútur Dúi Kristján Zimsen og Liv Bergþórsdóttir er forstjóri félagsins.