Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið 3Z hefur lokið 265 milljóna króna fjármögnunarlotu sem var leidd af reynslumiklum fjárfestum í lyfja- og tæknigeiranum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Fjármagnið verður nýtt til að ljúka forklínískum rannsóknum á tilraunalyfjum 3Z við ADHD og svefnleysi.
„Fyrirtækið, sem sprettur úr grunnrannsóknum við Háskólann í Reykjavík, hefur á síðustu árum þróað tækni og getu til þess að búa til líkön af miðtaugakerfissjúkdómum í sebrafiskum, og tækni og ferla til að greina og flokka lyfhrif í umfangsmiklum mælingum. Tæknin gerir kleift að skima á stuttum tíma stór lyfjasöfn fyrir miðtaugakerfisáhrifum,“ segir í tilkynningunni.
Fyrstu lyfin sem 3Z einkaleyfaver eru við ADHD og svefnleysi. Nú standa yfir prófanir á nagdýrum þar sem leitast er við að endurtaka og staðfesta virkni lyfjanna.
Tekið er fram að hin nýju ADHD lyfjaefni tilheyra ekki flokki örvandi lyfja, sem eru algengasta meðferðin við ADHD í dag, heldur hafi þau virkni í gegnum aðrar boðleiðir miðtaugakerfisins.
„Vísbendingar eru um að þau hafi vægari aukaverkanir en núverandi lyf á markaði og geti nýst stórum hópi sjúklinga sem svara ekki lyfjameðferð. Lyfið við svefnleysi tengist móttökum í heila sem hingað til hafa ekki verið tengdir við svefn en sterkar vísbendingar eru um að lyfið hafi einnig afar jákvæð áhrif á efnaskipti og verndandi áhrif gegn ofþyngd; en hækkandi líkamsþyngd helst í hendur við skert svefngæði.“
Karl Ægir Karlsson, framkvæmdastjóri 3Z og prófessor við HR:
„Fyrirtækið er nú að uppskera eftir mjög langt og áhættusamt þróunarstarf. Háskólinn í Reykjavík, Tækniþróunarsjóður og ekki síst endurgreiðsla ríkisins á rannsóknar- og þróunarkostnaði hafa reynst fyrirtækinu öflugur stuðningur til þess að komast á þann stað þar sem eðlilegt er að fjárfestar taki við. Þessari fjárfestingu fylgir ekki bara nauðsynlegt fjármagn, heldur mikil reynsla í að takast á við þær spennandi áskoranir sem fram undan eru. Fyrirtækið er í kjörstöðu til þess að hagnýta þær upplýsingar sem nú liggja fyrir“.