Hollenska ríkisstjórnin hyggst setja á fót sérstakan sjóð til að fjármagna verkefni til að vekja athygli á og fræða almenning um sögulegan þátt þjóðarinnar þegar kemur að þrælahaldi og -viðskiptum, samkvæmt heimildum Bloomberg. Sjóðurinn verður allt að 200 milljónir evra eða um 28 milljarðar króna að stærð.

Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði tilkynntur eftir opinbera afsökunarbeiðni hollensku ríkisstjórnarinnar í lok þessa árs eða byrjun næsta árs.

Borgarstjóri Amsterdam baðst formlega afsökunar í fyrra á sögulegu hlutverki borgarinnar í þrælaviðskiptum. Hollenski ríkisbankinn ABN Amro Bank og hollenski seðlabankinn gerðu slíkt hið sama í kjölfarið.

Klaas Knot, seðlabankastjóri De Nederlandsche Bank, beindi afsökunarbeiðni sinni til afkomenda þræla. Seðlabankinn stofnaði sérstakan sjóð til að fjármagna verkefni fyrir 5 milljónir evra eða um 700 milljónir króna á næstu tíu árum í Hollandi, Súrínam og Karíbahafinu.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, heimsækir Súrínam í vikunni og mun þar ræða um sögu þrælahalds. Rutte tjáði blaðamönnum á föstudaginn að „vænta megi þýðingarmikils atburðar síðar á árinu“ sem varðar sögulegan þátt Hollands í þrælahaldi.