„Skattahvatarnir hafa sannað gildi sitt rækilega og stóraukið fjárfestingu í nýsköpun. Þannig stuðla þeir að hærri framleiðni í hagkerfinu og bæta lífskjör,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI). Í nýrri greiningu SI segir að skattahvatar vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun sé eitt af mikilvægustu tækjum ríkisins til að hafa áhrif á framtíðarhagvöxt og verðmætasköpun.

Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafa tvöfaldast á fimm árum og námu um 240 milljörðum króna í fyrra. Útflutningur greinarinnar nam 121 milljarði króna á fyrri helmingi þessa árs samanborið við tæplega 104 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Um er að ræða tæplega 17% aukningu. Ef gert er ráð fyrir sama vexti á seinni helmingi árs verða útflutningsverðmæti greinarinnar nær 280 milljarðar króna á árinu. Gangi það eftir hefur útflutningsverðmæti greinarinnar þrefaldast á einum áratug, að því er kemur fram í greiningunni.

„Þetta sýnir glöggt gróskuna og vöxtinn í hugverkaiðnaði undanfarin ár. Við spáðum því á Iðnþingi í vor að hugverkaiðnaður yrði verðmætasta útflutningsgrein þjóðarinnar í lok yfirstandandi áratugar en það byggir á áætlunum fyrirtækjanna sjálfra,“ segir Sigurður.

Í greiningu SI segir að mikill framtíðarvöxtur sé í kortunum. Ríflega 18 þúsund manns starfi nú í hugverkaiðnaði hér á landi í fjölbreyttum og verðmætum störfum um allt land. Auðlind hugverkaiðnaðar sé fyrst og fremst nýsköpun sem eigi rætur að rekja til fjárfestinga í rannsóknum og þróun. SI hafi bent á það um árabil að fjárfesting í nýsköpun sé lykillinn að framleiðnivexti og framtíðarverðmætasköpun hagkerfisins. Auk þess sé áhersla á nýsköpun, þ.e.a.s. öflugt rannsókna- og þróunarstarf, forsenda þess að leysa samfélagslegar áskoranir, til að mynda í loftslagsmálum og heilbrigðisþjónustu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild sinni hér.