Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Marels, breytti nýlega nafni félags síns sem heldur utan um eignarhlut í Eyri Invest úr Árni Oddur Þórðarson ehf. í 3 Stikur ehf. í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar sem lauk um mitt þetta ár.
Félagið tapaði 326 milljónum króna í fyrra, samanborið við 1,1 milljarðs tap árið 2022. Eigið fé var neikvætt um 919 milljónir króna í lok síðasta árs en var neikvætt um 593 milljónir í lok árs 2022.
Skammtímaskuldir námu 1,5 milljörðum króna en undir lok árs breytti Landsbankinn langtímaláni í skammtímalán. Skuld við viðskiptabanka var greidd upp í byrjun janúar 2024.
Stjórn félagsins segir að umtalsverðar breytingar hafi orðið á eignum félagsins og fjárhagsstöðu á árinu. Félagið hafi keypt 134,2 milljónir að nafnverði í Eyri Invest hf. sem fjármagnað var með hækkun á hlutafé félagsins og láni frá eiganda.
Félagið áframseldi eignarhlut sinn í Eyri til nýrra félaga sem Árni Oddur stofnaði í fyrra; Sex álna ehf. og 12 Feta ehf.
Leiðrétt: Í blaðaútgáfu fréttarinnar kom fram að Arion banki væri lánveitandi 3 Stika (sem áður hét Árni Oddur Þórðarson ehf.). Hið rétta er að Landsbankinn er lánveitandi félagsins.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.