Framleiðslufyrirtækið Kjarnavörur hagnaðist um ríflega 293 milljónir króna á síðasta rekstrarári sem er töluvert meira en árið 2020 þegar hagnaðurinn nam tæplega 252 milljónum króna.
Rekstrartekjur námu tæplega 1,8 milljörðum í fyrra samanborið við ríflega 1,6 milljarða árið á undan. Um áramótin var eigið félagsins 875 milljónir sem er svipað og ári áður þegar það nam 881 milljón. Skuldir hækkuðu úr 1,1 milljarði króna í 1.370 milljónir á milli ára.
Stjórn Kjarnavara leggur til allt að 300 milljóna króna arðgreiðslu til hluthafa á árinu 2022. Dragsbæk Margarinefabrik A / S á tæplega 68% í Kjarnavörum og Guðjón Rúnarsson, sem er framkvæmdastjóri Kjarnavara, á ríflega 32%. Móðurfélag Dragsbæk er Orkla , sem keypti Nóa Síríus í fyrra.
Á meðal þekktustu vörumerkja Kjarnavara eru Ljóma smjörlíki, Úrvals sósur og Vals Tómatsósa. Kjarnavörur eiga einnig Ísbúð Vesturbæjar ehf. og um 67% hlut í Nonna litla ehf., sem framleiðir m.a. sósur og um 56% hlut í Innbaki hf.