Ríflega 60 stjórnendur hjá Reykjavíkurborg fengu samanlagt 301 milljón króna aukalega í laun árið 2024 vegna breytinga á gildistíma viðbótarlaunakerfis. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Meðal þeirra sem fengu greiðslu í fyrra er Stefán Eiríksson, sem lét af störfum sem borgarritari í byrjun árs 2020 og tók við stöðu útvarpsstjóra. Í ársreikningi borgarinnar fyrir árið 2024 kemur fram að uppgjör við fyrrverandi borgarritara hafi falið í sér tæplega 4,9 milljónir króna í laun og ríflega eina milljón í launatengd gjöld.

Upphaf málsins má rekja til launaákvarðana þáverandi kjaranefndar Reykjavíkurborgar (KNR) en í október 2020 var nýtt viðbótarlauna- eða viðbótareiningakerfi tekið upp þar sem fjöldi eininga ræðst af eðli starfanna. Stjórnendum var í kjölfarið raðað inn í kerfið en ákvörðunin var afturvirk og ákveðið að gildistími væri frá 1. júní 2019.

Eftir að kvörtun var send til umboðsmanns Alþingis kom þó í ljós að ekki hafi verið réttilega staðið að framsali valds til KNR til að ákveða launakjör embættismanna og forstöðumanna stofnana hjá Reykjavíkurborg.

Í júní 2024 afturkallaði ný kjaranefnd ákvörðun KNR frá árinu 2020 og tók nýja ákvörðun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta þó lesið blaðið og nálgast fréttina hér.