Þorpið vistfélag og Upprisa byggingafélag hafa gert með sér samning um byggingu um 300 svansvottaðra íbúða sem fyrsta áfanga í uppbyggingu Þorpsins á Ártúnshöfða. Þetta kemur fram í tilkynningu. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í vor og að fyrstu íbúðir verði afhentar á fyrsta ársfjórðungi 2024.
Í fyrsta hluta þessa áfanga verða byggðar 55 íbúðir í 4-6 hæða húsum. Alls mun Þorpið standa fyrir byggingu á um þúsund íbúðum á Ártúnshöfða sem verða seldar á næstu 2-5 árum. Í heild er um að ræða byggingarrétt á 80.000 fermetrum ofanjarðar svo hér er um að ræða eitt stærsta íbúðaverkefni síðari tíma á höfuðborgarsvæðinu.
Heildarframkvæmdakostnaður er áætlaður um fimmtán milljarðar króna. Um er að ræða þrjá íbúða- og atvinnuhúsnæðiskjarna þar sem áhersla er lögð á vistvænt grænt þéttbýli en íbúðirnar verða allar svansvottaðar og munu því fullnægja skilyrðum um græna fjármögnun fyrir kaupendur.
Sjá einnig: Kaupa í Ártúnshöfða fyrir 7 milljarða
Þorpið stefnir að byggingu mismunandi íbúða til þess að tryggja félagslega blöndun og fjölbreytilegt samfélag. Auk íbúða sem seldar verða á almennum markaði er stefnt að því að tryggja ungu fólki og fyrstu kaupendum hluta íbúðanna á viðráðanlegu verði, annar hluti verði hugsaður fyrir aldraða auk þess sem hluti íbúða verði í eigu leigufélags. Á jarðhæðum er gert ráð fyrir verslunum, kaffihúsum- og þjónustustarfsemi meðfram væntanlegri Borgarlínu og við Krossamýratorg.
Íbúðirnar liggja að endastöð fyrsta áfanga Borgarlínu við Krossamýratorg. Auk þess er heimild er fyrir allt að 250 bílastæðum neðanjarðar á svæðinu.
Lögð verður áhersla á vistvænar götur, græn svæði, leiksvæði og gott aðgengi fyrir gangandi og hjólandi. Með svansvottun eru gerðar eru strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í bygginga- og efnavöru, áhersla er lögð á góða loftræstingu og hljóðvist, orkunotkun sé hagkvæm og gæðastjórnun sé tryggð í byggingarferlinu. Einnig er gert ráð fyrir rekstrar- og viðhaldsáætlun fyrir byggingarnar.
Óli Valur Steindórsson, stjórnarformaður Upprisu:
„Þetta er skemmtilegt og spennandi verkefni og við hjá Upprisu erum þakklát fyrir traustið og hlökkum til þátttöku í uppbyggingu nýs hverfis í Reykjavík á nýjan hátt með vistvænum vottuðum byggingum."