Rekstrartekjur samstæðu Útgerðarfélags Reykjavíkur á fyrri helmingi árs námu 50,4 milljónum evra, eða sem nemur um 7 milljörðum króna. Til samanburðar námu rekstrartekjur 40,2 milljónum evra á sama tímabili í fyrra. Hagnaður nam 21,5 milljónum evra á tímabilinu, eða nærri 3,1 milljarði króna. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður félagsins 11,5 milljónum evra. Þetta kemur fram í nýútgefnum árshlutareikningi félagsins.

Eignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 517,8 milljónum evra og skuldir námu 261,2 milljónum evra. Þá nam bókfært eigið fé samstæðunnar 256,5 milljónum evra og var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 49,6% í lok tímabilsins.

Félagið greiddi út 13 milljónir evra í arð á tímabilinu, en Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, er eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur.