Tap flugfélagsins Play af hverjum farþega nam 3.193 krónum á síðasta ári sem er þó töluverð framför frá fyrra ári er tap af hverjum farþega nam 8.186 krónum. Þess ber þó að geta að fyrstu mánuðir ársins 2022 lituðust af heimsfaraldrinum en tap af hverjum farþega á síðari hluta ársins 2022 nam 5.140 krónum.

Tap flugfélagsins Play af hverjum farþega nam 3.193 krónum á síðasta ári sem er þó töluverð framför frá fyrra ári er tap af hverjum farþega nam 8.186 krónum. Þess ber þó að geta að fyrstu mánuðir ársins 2022 lituðust af heimsfaraldrinum en tap af hverjum farþega á síðari hluta ársins 2022 nam 5.140 krónum.

Eins og kom fram í uppgjöri félagsins sem birtist í þar síðustu viku tapaði félagið tæplega 4,9 milljörðum króna árið 2023 en árið áður nam tapið 6,5 milljörðum króna. Tekjur ríflega tvöfölduðust á milli ára, úr tæplega 19 milljörðum króna í nærri 39 milljarða.

Samkvæmt ársreikningi brenndi flugfélagið í gegnum tæplega 2,2 milljarða króna af lausafé sínu á síðasta ári. Eigið fé félagsins nam um 262 milljónum króna á lokadegi síðasta árs og eiginfjárhlutfall var 0,4%, en til samanburðar nam eigið fé 4,9 milljörðum í lok síðasta árs og eiginfjárhlutfall var 8,9%. Í uppgjörinu var tilkynnt um að hafinn væri undirbúningur á hlutafjáraukningu þar sem félagið ráðgerir að sækja allt að 3 til 4 milljarða króna í nýtt hlutafé. Í gær var svo greint frá því að félagið hafi safnað áskriftarloforðum frá stærstu hluthöfum að fjárhæð 2,6 milljarða króna á útgáfugenginu 4,5 krónur á hlut. Jafnframt stefnir Play á að flytja sig af First North-markaðnum yfir á Aðalmarkað Kauphallarinnar á fyrri hluta árs.

Í kauphallartilkynningu Play í tengslum við upplýsingafund fyrir fjárfesta í lok september í fyrra kvaðst félagið aftur á móti ekki ætla að sækja aukið hlutafé við þáverandi markaðsaðstæður. Félagið taldi lausafjárstöðu sína góða og sjóðstreymi væri í jafnvægi þegar tekið hafi verið tillit til fjárfestinga í stækkun flotans.
Play fann, rétt eins og Icelandair, fyrir neikvæðum áhrifum á bókanir vegna jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesskaganum og fjölmiðlaumfjöllunar ytra tengdum þessum atburðum. Vegna þessa ákvað Play að kippa afkomuspá sinni fyrir árið 2023 úr sambandi í lok nóvember.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.