Vörður tryggingar, dótturfélag Arion banka, tapaði 737 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá félaginu. Til samanburðar hagnaðist Vörður um 2,5 milljarða króna árið áður.

Í afkomutilkynningunni segir að neikvæð afkoma skýrist einkum af óhagstæðum aðstæðum á verðbréfamarkaði sem olli lækkun á öllum helstu eignaflokkum og skilaði sér í 3 milljarða króna neikvæðum viðsnúningi í fjáreignatekjum frá fyrra ári.

Tjón ársins hjá Verði nam 12 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 9,5 milljarða árið 2021. Samkvæmt afkomutilkynningu má rekja aukninguna til tíðra stórviðra á árinu og slæmra akstursskilyrða framan af árinu og mikillar ferðagleði meðal landsmanna sem leiddi til fleiri ferðatjóna.

Iðgjöld ársins jukust um 11% á milli ára, fóru úr 13,7 milljörðum í 15,2 milljarða. Þá var rekstrarkostnaður félagsins nær óbreyttur á milli ára.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar:

„Almenn starfsemi Varðar gekk vel á síðasta ári en rekstrarniðurstaðan er vonbrigði. Neikvæð afkoma af fjármálastarfsemi félagsins skýrir að langmestu leyti þá staðreynd að tap varð á rekstri Varðar í fyrsta skipti frá árinu 2008. Þá jókst tjónakostnaður um 26% sem er óvanaleg hækkun milli ára. Afkoma síðasta árs er því lituð af ytri aðstæðum sem erfitt var að sjá fyrir. Þrátt fyrir tímabundinn mótbyr er framtíðin björt. Grunnur félagsins er góður, fjárhagur traustur og ímynd og staða á markaði jákvæði. Viðskiptavinum fjölgar ár frá ári og framundan eru ótal tækifæri til að láta félagið vaxa og dafna. Með traustan bakhjarl eins og Arion banka, sem er tilbúinn að styðja við félagið og efla, eru spennandi tímar framundan. Starfsfólk félagsins fær stórt hrós fyrir framúrskarandi gott starf.“