Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 323 milljarða króna árið 2022, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Vöruskiptahallinn var 91 milljarði króna meiri en á árinu 2021.
Verðmæti vöruinnflutnings í fyrra var 1.325 milljarðar króna og jókst um 331 milljarð miðað við árið 2021 eða um 33,3% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingavörum.
Útflutningur jókst um 240 milljarða
Verðmæti vöruútflutnings á árinu 2022 nam 1.002 milljörðum króna og jókst um 240 milljarða króna miðað við árið 2021 eða um 31,5% á gengi hvors árs, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar.
Iðnaðarvörur voru 57% alls vöruútflutnings síðasta ári og jókst verðmæti þeirra um 43,9% samanborið við fyrra ár. Sjávarafurðir voru 35% alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra jókst um 18% frá fyrra ári.
Meðaltal gengisvísitölu var 3% sterkara en á árinu 2021. Gengið styrktist um 2,6% í desember 2022 samanborið við desember 2021.
Vöruskiptahallinn dróst saman í desember
Fluttar voru út vörur fyrir 101 milljarð króna fob í desember 2022 og inn fyrir 114 milljarða króna cif (111,7 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.
Vöruviðskiptin í desember, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 12,8 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 18 milljarða króna í desember 2021 á gengi hvors árs fyrir sig.
Á meðfylgjandi mynd má sjá að vöruskiptahallinn dróst frá síðustu september til nóvember síðastliðnum þegar hallinn var á bilinu 42-58 milljarðar í hverjum mánuði.