Útgerðarfélagið Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði skilaði 3,3 milljarða króna hagnaði í fyrra samanborið við 2,7 milljarða hagnað árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst um 3% og nam 5,2 milljörðum.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins, sem var undirrituð 3. apríl, segir að ekki liggi fyrir tillaga um arðgreiðslu og verður arður til hluthafa ákvarðaður á aðalfundi félagsins, en til samanburðar greiddi félagið út 1,3 milljarða í fyrra.

Rekstrartekjur Skinneyjar-Þinganess jukust um 4% á milli ára og námu rúmlega 17,8 milljörðum króna. Rekstrargjöld námu 12,5 milljörðum, en þar af voru laun og launatengd gjöld tæplega 6 milljarðar króna. Ársverkum fækkaði úr 281 í 269 milli ára.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 50,6 milljarða króna í árslok 2023 og eigið fé var um 18,3 milljarðar.

Stærstu hluthafar Skinneyjar-Þinganess eru Tvísker ehf. með 22,1% hlut, Ingvaldur Ásgeirsson með 15,2% hlut og Gunnar Ásgeirsson með 13,0% hlut.

Lykiltölur / Skinney-Þinganes

2023 2022
Tekjur 17.755 17.071
Rekstrarhagnaður 5.228 5.073
Hagnaður 3.329 2.721
Eignir 50.586 47.235
Eigið fé 18.349 16.320
- í milljónum króna

Aukið áfram við hlut sinn í Ice Fish Farm

Eignarhlutur Skinneyjar-Þinganes í laxeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm, sem hyggur á skráningu á íslenska First North-markaðinn í lok mánaðar, var bókfærður á nærri 7,9 milljarða króna í árslok 2023 samanborið við 6,2 milljarða árið áður. Skinney-Þinganes bókfærir eignarhluti í öðrum félögum á kostnaðarverði að teknu tilliti til virðisrýrnunar.

Fram kemur að lánveitingum útgerðarfélagsins til Ice Fish Farm AS, sem hét áður Fiskeldi Austfjarða, var breytt í hlutafé að virði 632 milljónir króna í fyrra.

„Samstæðan hefur haldið áfram að auka við sig hlutafé í Ice Fish Farm AS, en stjórnin telur að laxeldið eigi margt sameiginlegt með kjarnastarfsemi samstæðunnar og í laxeldi séu vaxtamöguleikar fyrir samstæðuna,“ segir í skýrslu stjórnar.