Heildarkostnaður aðgerðarvakningarinnar Tökum höndum saman, á vegum Vinnueftirlitsins, nam 34 milljónum króna. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Í svarinu segir að markmið herferðarinnar sé að hvetja vinnustaði landsins til að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu, þar á meðal að koma í veg fyrir neikvæð samskipti svo sem einelti, áreitni og ofbeldi. Fjárhæðinni hafi verið varið í hönnun og gerð tveggja auglýsinga, myndbanda, fræðsluefnis á vefsíðu og markaðsefnis auk birtinga í sjónvarpi, útvarpi, vefmiðlum, samfélagsmiðlum og auglýsingaskiltum.

Aðgerðarvakningarnar eru hluti af tveimur verkefnum sem Vinnueftirlitið vinnur að og er fjármagnað af þeim sjálfum.

„Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fól Vinnueftirlitinu að framkvæma tillögur aðgerðahóps gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem skilað var í júní 2021. Gerður var tveggja ára samningur á árinu 2021 og hófst verkefnið formlega í upphafi árs 2022 þegar verkefnisstjóri tók til starfa og skipað var í samráðshóp með fulltrúum frá Embætti landlæknis, Jafnréttisstofu, samtökum launafólks og samtökum atvinnurekenda. Verkefnið var framlengt um eitt ár um síðastliðin áramót. Þetta verkefni felur meðal annars í sér að Vinnueftirlitið hafi forystu um gerð fræðslu- og forvarnarefnis til að styðja við heilbrigða vinnustaðamenningu, þar á meðal að koma í veg fyrir einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Meðal þess sem stendur til að gera á árinu er að endurtaka rannsóknina Valdbeiting á vinnustað frá árinu 2020 eins og aðgerðaráætlunin gerir ráð fyrir,“ segir í svari Vinnueftirlitsins.

Þá hafi félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið í lok árs 2022 gert með sér samstarfssamning með það að markmiði að hvetja til samfélagslegrar umræðu um mikilvægi vinnuverndar og stuðla þannig að jákvæðri ímynd og viðhorfi almennings til vinnuverndarstarfs svo koma megi á öflugu vinnuverndarstarfi á vinnustöðum landsins. Markmið sé að ná til þátttakenda á innlendum vinnumarkaði með því að efna til almennrar umræðu um mikilvægi heilbrigðrar vinnustaðamenningar, þar á meðal jákvæðra samskipta á vinnustöðum. Þessi samningur hafi einnig verið endurnýjaður um eitt ár.

Mörgum er eflaust ferskur í minni öryggisdansinn sem Björn Stefánsson leikari steig í auglýsingum sem voru áberandi í sjónvarpi og víðar fyrir skemmstu. Samkvæmt heimasíðu Vinnueftirlitsins sá Reynir Lyngdal um leikstjórn auglýsingarinnar. Þar sé „kynntur til sögunnar öryggisdans við grípandi lag til að minna á mikilvægi vinnuverndar í daglegum störfum.“