Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn tapaði 344 milljónum króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 153 milljóna tap á sama tímabili í fyrra. Félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Rekstrartekjur samstæðunnar á fyrsta fjórðungi drógust saman um 2,7% milli ára og námu 5.220 milljónum króna.

„Auglýsingatekjur lækkuðu um 110 m.kr. milli fyrsta ársfjórðungs 2025 og sama tímabils 2024. Hluti skýrist af einskiptistekjum á fyrra tímabili, en aðalástæðan er umfangsmiklar breytingar á skipulagi einingarinnar til að styrkja reksturinn til framtíðar. Auk þess er samdráttur í reikitekjum vegna lækkunar á tekjum af erlendum ferðamönnum,“ segir í uppgjörstilkynningu félagsins.

„Jákvæð þróun er hins vegar í kjarnastarfsemi fjarskipta, þar sem bæði tekjur og fjöldi viðskiptavina aukast á milli ársfjórðunga. Þá hafa tekjur af Stöð 2+ einnig aukist og fjöldi áskrifenda hefur aldrei verið meiri.“

Rekstrartap

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, að frádregnum hreinum leigugreiðslum (EBITDAaL) nam 582 milljónum á fjórðungnum, samanborið við 750 milljónir á fyrsta fjórðungi 2024. EBITDAaL er lýst sem nýjum megin árangursmælikvarða en markmiðið sé að veita skýrari og gagnsærri mynd af undirliggjandi rekstri.

Rekstrartap (EBIT) var upp á 139 milljónir króna á tímabilinu, samanborið við 47 milljónir króna. Félagið segir að rekstrarafkoman sé í takti við áætlanir félagsins.

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2025 er í samræmi við áætlanir og endurspeglar bæði áframhaldandi aðlögun okkar að krefjandi markaðsaðstæðum og þá stefnu félagsins að byggja upp sjálfbæran og arðbæran rekstur til framtíðar,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.

„Líkt og áður hefur komið fram, gerðum við ráð fyrir kostnaðarþunga vegna innleiðingar nýrrar stefnu, og gert er ráð fyrir að annar ársfjórðungur verði einnig þungur i kostnaði áður en við njótum fulls rekstrarlegs ávinnings af þeim breytingum sem við höfum ráðist í.“

Eignir Sýnar voru bókfærðar á 30,8 milljarða króna í lok mars og eigið fé var um 8,3 milljarðar króna. Sýn segir að fjárhagsstaða félagsins hafi verið styrkt á fjórðungnum þegar gengið var frá framlengingu á lánalínum félagsins.

Hreinar vaxtaberandi skuldir án leiguskuldbindinga námu 5,9 milljörðum í lok ársfjórðungsins og lækkuðu um 215 milljónir frá áramótum.