Í uppfærðri húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var á fundi borgarráðs í gær, er tilgreint að markmið borgarinnar sé að 35% allrar nýrrar uppbyggingar verði á vegum óhagnaðardrifinna uppbyggingarfélaga eða í formi félagslegs leiguhúsnæðis.
„Það verði tryggt með markvissri lóðaúthlutun til óhagnaðardrifinna félaga og samningum við uppbyggingaraðila, sbr. samningsmarkmið borgarráðs,“ segir í húsnæðisáætluninni.
„Framboð leiguhúsnæðis fyrir tekjulægri hópa verði stóraukið og almennt húsnæði sem hentar húsnæðisþörfum tekjulægri hópa og fyrstu kaupenda.“
Borgin segist vera að skerpa á áður settum markmiðum húsnæðissáttmála frá 2023 þar sem stefnt var að því að 25% af nýjum íbúðum verði á höndum óhagnaðardrifinna félaga og 10% nýrrar uppbyggingar verði vistvænt húsnæði og hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk.
„Hlutfall hagkvæmra og félagslegra íbúða skal nema um 35% af heildaruppbyggingu. Á löndum í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar nemi þetta hlutfall minnst 40% af uppbyggingu og verði lóðum á viðkomandi svæðum úthlutað á hóflegu verði. Með þessu verði sköpuð skilyrði fyrir uppbyggingu allt að 5.600 hagkvæmra og vistvænna íbúða og húsnæðis á félagslegum grunni.“
Yfirlýst markmið húsnæðisáætlunarinnar er að allt að 16.000 nýjar íbúðir verði byggðar fram til ársins 2034.
„Við byggjum borg fyrir fólk, ekki bara fasteignir,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri í tilkynningu á vef borgarinnar. „Við ætlum að tryggja að íbúar hafi raunverulegan aðgang að öruggu og viðeigandi húsnæði.“
Borgin segist ætla að náið með verkalýðshreyfingunni, óhagnaðardrifnum félögum, ríkinu og lífeyrissjóðum til að hraða uppbyggingu á uppbyggingarsvæðum borgarinnar, m.a. í Höllum í Úlfarsárdal og víðar.