Fjárfestingafélagið Snæból, sem er í eigu hjónanna Finns R. Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, hagnaðist um 3,5 milljarða króna á síðasta ári. Til samanburðar hagnaðist félagið um 1,7 milljarða króna árið áður.
Fjáreignir námu 20,8 milljörðum samanborið við 17,5 milljarða árið áður. Þar af voru eignarhlutir í skráðum félögum rúmlega 8 milljarðar króna og eignarhlutir í óskráðum félögum tæplega 11,2 milljarðar króna.
Afkoma fjáreigna nam 2,8 milljörðum króna í fyrra samanborið við 1,2 milljarða árið áður. Þá námu eignarhlutir Snæbóls í dóttur- og hlutdeildarfélögum 4,1 milljarði króna á síðasta ári samanborið við 3,8 milljarða árið áður.
Félagið er næststærsti hluthafi Sjóvár með 9,77% hlut og á rúmlega eins prósents hlut í Síldarvinnslunni. Það er meðal stærstu hluthafa í lyfjafyrirtækinu Coripharma, á nærri helmingshlut í KLS eignarhaldsfélagi og á hlut í Eyri Invest.
Þá á félagið hlut í Nordic Wasabi, sem ræktar wasabi á Íslandi, og Reykjavík Creamery, sem á samnefnt mjólkurbú í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Enn fremur á félagið m.a. hlut í framtakssjóðum í rekstri Alfa Framtaks annars vegar og VEX hins vegar.
Eigið fé Snæbóls var 24,8 milljarðar króna í árslok 2024, en félagið er nær skuldlaust. Eignir námu 25,8 milljörðum króna. Félag þeirra hjóna hefur varið um 250 milljónum króna í styrki og framlög til góðgerðarmála á undanförnum fjórum árum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.