Námufyrirtækið Polymetal International hefur upplýst að það hyggist selja starfsemi sína í Rússlandi fyrir um 3,7 milljarða dala, eða sem nemur um 512 milljörðum króna.
Fyrirtækið bætist þar með í fjölmennan hóp fyrirtækja sem hafa yfirgefið Rússland eftir innrásina í Úkraínu.
Polymetal International hefur gengið frá samningi um sölu á JSC Polymetal, eða Polymetal Russia, til JSC Mangazeya Plus sem er eining í eigu góðmálmanámufélagsins Mangazeya Mining.
Polymetal hefur verið með starfsemi sína í Rússlandi til skoðunar frá því að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu í febrúar árið 2022 og ákváðu nú að selja starfsemina þar sem henni fylgdi óásættanlega mikil áhætta. Óttaðist félagið m.a. að rússnesk yfirvöld myndu ráðast í eignaupptöku eða beita sér fyrir ríkisvæðinu námuvinnslunnar.