Play tapaði 26,8 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur 3,7 milljörðum króna miðað við meðalgengi krónunnar á tímabilinu. Til samanburðar tapaði flugfélagið 27,2 milljónum dala á sama tímabili í fyrra. Play birti árshlutauppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Þess ber að hafa í huga við samanburð milli ára að páskarnir voru á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs, en í apríl á þessu ári.
Tekjur Play á fjórðungnum námu 46,4 milljónum dala, eða um 6,4 milljörðum króna, samanborið við 54,4 milljónir dala á sama tímabil í fyrra. Samdráttinn má rekja til þess að dregið var úr framboði og flugáætlun löguð betur að árstíðabundinni eftirspurn.
Tekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) á fyrsta ársfjórðungi 2025 voru 4,10 sent, samanborið við 4,24 sent á sama tíma 2024. Meðaltekjur á hvern farþega hækkuðu um 1,2%.
Handbært fé Play jókst á milli ára, úr 17,2 milljónum dala í lok mars 2024 í 21,1 milljón dala í lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs.
„Lausafjárstaðan er sterkari samanborið við fyrra ár, sem endurspeglar betri rekstrarhorfur. Félagið leitar ávallt leiða til að tryggja lausafjárstöðu félagsins sem best, meðal annars með hagræðingu á veltufé en ef markaðsaðstæður breytast kemur til greina að auka hlutafé í félaginu eða dótturfélagi þess,“ segir í tilkynningu Play.
Eignir Play námu 363 milljónum dala, eða tæplega 48 milljörðum króna í lok mars sl. Eigið fé flugfélagsins var neikvætt um 60,4 milljónir dala eða um 8 milljarða króna.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, kveðst ánægður með fyrsta fjórðung Play. Í uppgjörstilkynningunni segir hann ljóst að þær breytingar sem félagið hafi gert séu þegar farnar að skila árangri.
„Ég er mjög ánægður með þann árangur sem við náðum á fyrsta ársfjórðungi 2025. Eins og við höfum áður greint frá hvílir meginþungi viðskiptalíkans okkar á tveimur lykilstoðum: flugi til sólarlanda og að tryggja arðbær leiguverkefni fyrir þann hluta flota okkar sem ekki nýtist í okkar framleiðslu. Ég er stoltur af því að segja að við erum að skila góðum árangri á báðum þessum sviðum. […]
Það sem skiptir mestu máli er að horfur í rekstrinum eru jákvæðar og við förum inn í sumarið með öflugt, vel skipulagt leiðakerfi og jafnvægi í nýtingu flota, sem gerir okkur kleift að styrkja fjárhagsstöðu okkar.“