Sæbýli í Grindavík hefur lokið hlutafjárútboði til innlendra fjárfesta að fjárhæð 374 milljónir króna. Eyrir Sprotar hefur verið stærsti hluthafi Sæbýlis og í tilkynningu segir að fjárfestingasjóðurinn verði áfram kjölfestufjárfestir í fyrirtækinu. Þá hafi einnig komið inn nýir hluthafar að félaginu. Fyrirtækjaráðgjöf veitti ráðgjöf við útboðið.

Sigurður Pétursson var meðal fjárfesta í útboðinu en hann hefur verið skipaður stjórnarformaður Sæbýlis en hann hefur reynslu og þekkingu af uppbyggingu lokaðra eldiskerfa við íslenskar aðstæður. Sigurður er stofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish sem byggði einu landeldisstöðina hér á landi sem byggir á vatnsendurnýtingarkerfi.

Frá stofnun fyrir fimmtán árum síðan hafa eigendur og starfsmenn Sæbýlis unnið að uppbyggingu eigin klakstofns og þróun á tækni og framleiðsluaðferð við eldi á sæeyrum (e. abalone) við náttúruaðstæður hér á landi.

Sjá einnig: Heilbrigður klakstofn mestu verðmætin

Sæbýli hefur einbeitt sér að því að byggja upp eldisstofn með dýrum frá Japan og Kaliforníu og hefur lagað stofn sinn að þeim einstöku náttúrulegu aðstæðum, með jarðvarma og borholusjó, sem

Í tilkynningunni segir að uppsetning eldsins sé einstök á heimsvísu og sú fyrsta sinnar tegundar. Hún byggir á lóðréttu hillukerfi með lokað endurnýtingarkerfi sem nýtir græna raforku og jarðvarma til þess að hita upp tæran borholusjó.

Fyrirtækið hefur fest kaup á húsnæði við hafnarbakkann í Grindavík. Verið er að standsetja húsnæðið og koma klakstofninum þar fyrir. Þar á að stórauka framleiðsluna, færa hana af tilraunastigi og hefja framleiðslu á umhverfisvænni matvöru í háum gæða- og afurðaverðsflokki.

Ásgeir Guðnason, stofnandi og framkvæmdastjóri Sæbýlis:

„Það krefst þrautseigju og þolinmæði að fylgja eftir tilraunum og uppbyggingu á framandi hlýsjávartegund, flytja dýrin þvert yfir hnöttinn og líkja eftir eldisskilyrðum hér á landi. Nýtt hlutafé verður notað til þess að klára uppsetningu á klakstöðinni í Grindavík og leggja grunn að áframeldi undir vörumerki Aurora Abalone sem við kynnum síðar á árinu. Sæbýli stefnir að því að fara yfir 200 tonna framleiðslu sæeyra á næstu þremur árum.“

Sigurður Pétursson, stjórnarformaður:

„Það hefur verið ánægjulegt að vinna með stofnendum og Eyri, kjölfestufjárfesti Sæbýlis, við mótun stefnu og framtíðarsýn sem fylgt verður eftir með þessari hlutafjáraukningu. Hluthafahópurinn samanstendur af aðilum sem hafa mikinn áhuga á þessu græna fjárfestingaverkefni og við vinnum saman að því að færa félagið frá mikilvægu stigi frumkvöðlastarfsemi í arðvænlega framleiðslueiningu umhverfisvænnar matvælaframleiðslu.“