Lyfja hagnaðist um 399 milljónir króna á síðasta ári en til samanburðar nam hagnaður ársins 2022 446 milljónum. Apótekakeðjan seldi vörur fyrir tæplega 16,5 milljarða og jókst salan um rúmlega 1,3 milljarða á milli ára.

Vörunotkun nam 11,2 milljörðum og jókst nærri 900 milljónir frá fyrra ári. Framlegð nam því 5,2 milljörðum í fyrra, samanborið við 4,8 milljarða árið 2022.

Eignir Lyfju námu 10,3 milljörðum króna í lok síðasta árs, skuldir 6 milljörðum og eigið fé 4,3 milljörðum.

Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á yfirstandandi ári vegna reksturs síðasta árs en í fyrra voru 300 milljónir greiddar út til hluthafa. Árið áður nam arðgreiðsla 500 milljónum.

Fyrr í sumar undirrituðu Festi og Samkeppniseftirlitið sátt vegna kaupa félagsins á öllu hlutafé Lyfju en fyrst var tilkynnt um kaupin sumarið 2023.

SÍA III, framtakssjóður í rekstri Stefnis, áttu áður 70% hlut í Lyfju. Þarabakki ehf., félag fjárfestisins Daníels Helgasonar, átti 15% hlut og eftirstandandi 15% hlutur var svo í eigu félagsins Kaskur ehf. sem er í eigu Inga Guðjónssonar. Ingi er stjórnarformaður Lyfju og Daníel situr einnig í stjórn félagsins.