Eimskip skilaði 28,1 milljónar evra hagnaði, eða sem nemur 4,1 milljarði króna, eftir skatta á þriðja ársfjórðungi. Það er um 35,8% hækkun frá sama tímabili í fyrra. Flutningafélagið segir í uppgjörstilkynningu að veruleg lækkun alþjóðlegs flutningsverðs muni hafa áhrif á framlegð félagsins en staða Eimskips komi sér þó vel við núverandi aðstæður.

Tekjur Eimskips hækkuðu um 23,5% á milli ára og námu 292,2 milljónum evra eða um 42,3 milljörðum króna á fjórðungnum.

Eimskip segir að áfram hafi verið sterkt magn í innflutningi til Íslands og Trans-Atlantic þjónustunni. Þá hafi útflutningur frá Íslandi tekið við sér í lok fjórðungsins eftir rólegt sumar.

Rekstrarhagnaður Eimskips fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórðungnum nam 49,6 milljónum evra eða 7,2 milljörðum króna, samanborið við 36,8 milljónir evra EBITDA-hagnað á sama tíma í fyrra. EBITDA framlegð af rekstrinum var 17,0% samanborið við 15,5% á þriðja fjórðungi 2021. .

Bjartari tónn hjá Vilhelm en forstjóra Maersk

Danski skiparisinn Maersk sagði í uppgjörstilkynningu í dag að ljóst sé að flutningaverð hafi náð hámarki á síðasta fjórðungi og hafi byrjað að lækka. Maersk sagðist gera ráð fyrir að afkoma félagsins myndi, eftirspurn og flutningsverð muni dragast saman á næstunni.

„Við teljum efnahaglægð vera yfirvofandi […] Þrátt fyrir að við höfum aldrei skilað jafn góðum fjárhagslegum árangri þá eru allir mælikvarðar sem við fylgjumst með sótrauðir,“ sagði forstjóri Maersk í viðtali við Financial Times í gær.

Í uppgjörstilkynningu Eimskips segir forstjórinn Vilhelm Már Þorsteinsson að alþjóðleg flutningsverð hafi lækkað verulega á öllum leiðum. Það var þó heldur bjartari tónn yfir yfirlýsingu Vilhelms en ummælum Skou.

„Þessi þróun mun hafa áhrif á framlegð í alþjóðlegri flutningsmiðlun þrátt fyrir að aukið aðgengi að plássi og búnaði hjá stærri skipafélögum ætti að styðja við magnaukningu sem vegur upp á móti verðlækkunum,“ segir Vilhelm Már.

„Flutningsmiðlun Eimskips er sérhæfð í flutningum á kældri og frystri vöru sem kemur sér vel við núverandi aðstæður þar sem eftirspurn eftir matvöru er almennt minna næm fyrir efnahagsþrengingum en eftirspurn eftir annars konar vörum.“

Hann segir að heilt á litið hafi fjórði ársfjórðungur farið vel af stað og Eimskip telur horfur út árið vera nokkuð góðar.

„Horfur í alþjóðlegu efnahagsumhverfi fyrir næsta ár litast af mikilli óvissu og verðbólguþrýstingi sem hefur bæði áhrif á magn í alþjóðaviðskiptum og vinnumarkað um heim allan. Við trúum því að Eimskip sé vel staðsett með heimamarkað í Norður-Atlantshafi í löndum sem eiga það sammerkt að vera með hagkerfi sem eru drifin áfram af útflutningi auðlinda, en að sama skapi verulega háð innflutningi á neysluvöru og hrávörum.“