KFC ehf., félag utan um rekstur skyndibitakeðjunnar KFC hér á landi, hagnaðist um 350 milljónir króna á síðasta ári. Til samanburðar nam hagnaður félagsins 272 milljónum árið áður og jókst hagnaðurinn því um tæp 30% á milli ára.

Velta KFC nam rúmlega fjórum milljörðum króna á síðasta ári en til samanburðar nam veltan 3,6 milljörðum árið 2020. Rekstrargjöld voru 3,6 milljarðar og jukust um 370 milljónir á milli ára. Þar af voru laun og annar starfsmannakostnaður um 1,3 milljarðar.

Eignir KFC námu tæplega 700 milljónum króna á síðasta ári og jukust þær um 50 milljónir á milli ára. Eigið fé félagsins nam tæpum 1,3 milljörðum króna í árslok 2021 og jókst um 280 milljónir á milli ára samkvæmt efnahagsreikningi.

Í ársreikningi segir að heimsfaraldurinn hafi ekki haft veruleg áhrif á rekstur félagsins. Undanfarin ár hafi sala og afkoma félagsins aukist á hverju ári frá stofnun og gera stjórnendur félagsins ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Þar sem helstu aðföng félagsins eru innlend muni óvissu ástand erlendis ekki hafa áhrif á reksturinn.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2022 að fjárhæð 65 milljónum króna vegna ársins 2021. Greiddur var 70 milljón króna arður til hluthafa á síðasta ári og 64 milljóna arður árið á undan. Hlutafé KFC á Íslandi er allt í eigu Helga Vilhjálmssonar, sem er í senn framkvæmdastjóri félagsins.