Ýmis félög lista- og fjölmiðlamanna rata á lista Viðskiptablaðsins yfir þau 400 félög sem greiddu mestan tekjuskatt í fyrra. Dirrindí, félag Víkings Heiðars Ólafssonar og Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur, tekur toppsætið af Þolmynd slf.,félagi Ara Eldjárns, sem var með mestan hagnað listamanna árið 2022.
Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti á dögunum.
Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins nam hagnaður Dirrindí 65 milljónum króna í fyrra en hagnaður Þolmyndar 53 milljónum. Næst á eftir kemur Doc Media, félag Hjörvars Hafliðasonar, með 34 milljóna hagnað en félagið færist upp um þrjú sæti milli ára. Bjarthöfði, félag Sólmundar Hólms Sólmundarsonar, færist aftur á móti niður um tvö sæti.
Fjölmörg félög söngvara má þá finna á listanum, t.d. félög í eigu Páls Óskars Hjálmtýssonar, Bubba Morthens, Bríetar, og Jóns og Friðrik Dórs Jónssona. Einnig má finna félag rithöfundanna Sigríðar Hagalíns Björnsdóttur og Jóns Kalmans Stefánssonar og jafnvel félag forsetaframbjóðandans Jóns Gnarrs.
Hagnaður 20 afkomuhæstu félaga listamanna nam samanlagt 404 milljónum króna samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins og launagreiðslur námu 183 milljónum.
Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í morgun nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.
Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.