Um eittleytið í dag fóru í gegn 409 milljóna króna viðskipti með HFF-skuldabréf gamla Íbúðalánasjóðs, svokölluð Íbúðabréf, með lokagjalddaga árið 2044.

Um er að ræða fyrstu viðskiptin í þessum flokki frá 8. desember síðastliðnum og þau umfangsmestu frá því Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti stöðu og hugmyndir um uppgjör ÍL-sjóðs í október.

Í kjölfar kynningar Bjarna, þar sem kynntar voru hugmyndir um möguleg slit sjóðsins með lagasetningu, lækkaði verð Íbúðabréfa í flokki um HFF150644 um tæplega 16%, HFF150434 féll um meira en 8% og HFF150224 féll um meira en 1%. Síðan þá hafa íbúðabréfin verið metin á markaði miðað við uppgreiðsluvirði þeirra.

Viðskiptin í dag fóru fram á genginu 102,19 krónur miðað við ávöxtunarkröfuna 3,55%. Verðið er um 2% yfir gengi bréfanna síðustu daga en 15% undir verði bréfanna fyrir framangreinda kynningu Bjarna. Rétt er að taka fram að krafa langra verðtryggðra ríkisbréfa hefur hækkað á sama tímabili.

Ekki er ólíklegt að seljandinn sé verðbréfasjóður, sem fjárfestir í ríkisskuldabréfum, að bregðast við innlausn viðskiptavina sem eru mestu leyti einstaklingar.

Lífeyrissjóðir landsins, sem eru meðal stærstu eigenda íbúðabréfanna, telja lagalega stöðu sína afar sterka og krefjast fulls verð fyrir bréfin í samræmi við skuldbindingar Íl-sjóðs ef hann er rekinn út líftíma sinn. Nokkrir stórir lífeyrissjóðir hafa gefið það út að þeir telji ekki forsendur fyrir formlegum samningaviðræðum byggt á þeim samningsmarkmiðum sem Bjarni hefur kynnt.

Viðskiptablaðið ræddi í vikunni við Steinþór Pálsson, milligöngumann ríkisins í viðræðum við eigendur íbúðabréfanna, um stöðu viðræðna við lífeyrissjóði.