Hagnaður Sjóvár nam 9,6 milljörðum króna í fyrra samanborið við 5,3 milljarða árið áður, sem er 42% arðsemi eigin fjár. Þetta kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri félagsins .
Mestu munar um hagnað af fjárfesetingastarfsemi, sem nam 7,8 milljörðum fyrir skatta og rétt tæplega tvöfaldaðist milli ára, en vátryggingastarfsemi skilaði 2,5 milljörðum sem er fimmtungsaukning.
Samsett hlutfall – hlutfall iðgjalda af tjónum og kostnaði af tryggingarekstri – nam 90,9% á árinu og lækkaði um rúmt prósentustig milli ára, en á þessu ári spáir félagið 93-95% hlutfalli og um 2 milljarða hagnaði af vátryggingarekstri.
Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nam 18,5% samanborið við 13,2% árið áður, en miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu gera áætlanir félagsins ráð fyrir 6% ávöxtun til lengri tíma. Miðað við ávöxtun fjárfestingareigna það sem af er þessu ári er hinsvegar aðeins gert ráð fyrir um 5% ávöxtun í ár, en sem kunnugt er hafa markaðir fallið nokkuð nýverið.
Iðgjöld uxu um 15% og eigin iðgjöld um 15,7%, en eigin tjón um 14,6%. Tjónahlutfall nam 69,1% og lækkaði lítillega úr 70,7% árið áður.
Félagið hefur ákveðið að fella niður maígjalddaga lögboðinna ökutækjatrygginga einkabíla á þessu ári, eins og gert var stuttu eftir að heimsfaraldurinn skall á árið 2020.
„Okkur finnst sanngjarnt að koma til móts við viðskiptavini okkar með þessu hætti. Nú lítur út fyrir að óvenjulegu tímabili sé að ljúka sem hefur verið samfélaginu krefjandi. Rekstur félagsins hefur gengið vel í gegnum þennan tíma og við viljum að viðskiptavinir okkar njóti góðs af því. Þess vegna ráðumst við í að fella niður iðgjöld lögboðinna bifreiðatrygginga líkt og í maí 2020. Það er von okkar að framundan séu betri tímar og líf okkar allra muni fljótlega færast aftur í eðlilegt horf,” er haft eftir Hermanni Björnssyni forstjóra Sjóvár í tilkynningu um málið.