Um 42 milljóna króna tap varð af rekstri ísgerðarinnar Kjörís á síðasta ári, samanborið við tap upp á 45 milljónir árið 2022.

Um 42 milljóna króna tap varð af rekstri ísgerðarinnar Kjörís á síðasta ári, samanborið við tap upp á 45 milljónir árið 2022.

„Rekstur Kjörís gekk ekki sem skyldi á árinu og tap varð á rekstrinum. Miklar aðfangahækkanir höfðu áhrif á reksturinn og ekki gekk að koma þeim öllum út í verðlagið,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur Kjöríss jukust um 9,5% milli ára og námu 1.435 milljónum og aðrar tekjur voru 30 milljónir. Rekstrargjöld Ígerðarinnar jukust um 6% milli ára og námu 1.425 milljónum.

„Sala lykilvara gekk ágætlega en sumarsalan var undir meðallagi vegna lakrar veðráttu á aðalsölumánuðum,“ segir stjórn félagsins.

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir (EBITDA) var jákvæð um 40 milljónir í fyrra en neikvæð um 2 milljónir árið 2022. EBIT var neikvæð um 10 milljónir í fyrra en neikvæðum 45 milljónir.

Laun og tengd gjöld jukust um 6,3% milli ára og námu 570 milljónum króna í fyrra. Ársverk voru óbreytt frá fyrra ári eða 51.

„Stjórnendur eru að vinna að hagræðingaraðgerðum hjá félaginu til að straumlínulaga reksturinn og vonast með því að ná jafnvægi í rekstrarafkomu félagsins á næstu árum.“

Fjármagnsgjöld félagsins voru um 34,7 milljónir í fyrra samanborið við 15,2 milljónir árið 2022. Kjörís rekur aukninguna til fjárfestinga félagsins í nýjum framleiðslubúnaði í fyrra sem komi til með að nýtast í hagræðingaskyni. Kjörís fjárfesti fyrir 227 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum í fyrra.

Eignir Kjörís voru bókfærðar á 818 milljónir í árslok 2023 og eigið fé var um 249 milljónir.

Kjörís er í jafnri eigu systkinanna Aldísar, Guðrúnar, Sigurbjargar og Valdimars Hafsteinsbarna. Valdimar er framkvæmdastjóri félagsins, sem er með höfuðstöðvar í Hveragerði. Guðrún Hafsteinsdóttir er dómsmálaráðherra.