HS Orka tapaði 420 milljónum króna eftir skatta árið 2024 samanborið við 1,5 milljarða hagnað árið áður. Félagið segir reksturinn hafa gengið vel í fyrra þrátt fyrir ítrekuð eldsumbrot en alls gaus sex sinnum á Sundhnúksgígaröðinni á árinu.
Í fréttatilkynningu segir HS Orka að afkoma fyrir fjármagnsliði hafi verið ásættanleg. Rekstrarhagnaður félagins (EBIT) nam tæplega 2,7 milljörðum króna í fyrra samanborið við 3,1 milljarð árið 2023. Nettó fjármagnsgjöld jukust um 947 milljónir og námu 2,6 milljörðum króna.
„Fjármagnsliðir setja verulegt mark á afkomu félagsins milli ára. Í stórum dráttum skýrist breytingin af óhagstæðum gengismun að fjárhæð 70 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við gengishagnað að fjárhæð 1.019 milljónir króna árið áður. Samhliða framkvæmdum í Svartsengi hækkuðu nettó fjármagnsgjöld um 947 milljónir króna á milli ára, voru 2.646 milljónir 2024 en 1.700 milljónir 2023.“
Rekstrartekjur HS Orku jukust um 10% milli ára og námu 14,5 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 13,0 milljarða árið áður. Rekstrargjöld félagsins jukust um 25,8% og námu 9,1 milljarði.
„HS Orka sýndi styrk sinn svo um munar á árinu. Styrkurinn speglast í því að tekist hefur að halda daglegum rekstri orkuvera fyrirtækisins stöðugum þrátt fyrir aðsteðjandi náttúruvá en eldsumbrot og jarðhræringar höfðu óveruleg áhrif á orkuvinnslu og framkvæmdir HS Orku á árinu,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.
Hann bendir á að félagið lauk við 40 milljarða króna endurfjármögnun fyrirtækisins á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum við krefjandi aðstæður. Þá var víðtæk tryggingavernd félagsins endurnýjuð.
„Umfangsmikil stækkun og endurbætur á orkuverinu í Svartsengi hafa gengið vonum framar þrátt fyrir að framkvæmdir hafi legið niðri um tíma vegna eldsumbrota og endurtekinna rýminga á svæðinu. Vel hefur gengið að vinna upp tafir sem af því hlutust og verður ný virkjun í Svartsengi, orkuver 7, gangsett síðar á þessu ári,” segir Tómas.
Eignir HS Orku voru um 80 milljarðar í árslok 2024 og eigið fé var um 31,2 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 39% um síðustu áramót, en 47% að meðtöldu víkjandi láni frá hluthöfum. Ekki var greiddur út arður á árinu.