Tilnefningarnefnd Nova hefur lagt til að Jóhannes Þorsteinsson og Sigríður Olgeirsdóttir verði auk þriggja sitjandi stjórnarmanna kjörin í stjórn fjarskiptafélagsins á aðalfundi þess sem fer fram þann 29. mars.
Nefndin óskaði eftir framboðum í janúar í auglýsingu undir fyrirsögninni „Ert þú skemmtilega stjórnsöm týpa?“ Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að 44 framboð hafi borist henni.
Eftir yfirferð á þeim framboðum sem bárust ákvað nefndin að bjóða níu frambjóðendum, sem ekki áttu sæti í stjórn, í viðtöl til nefndarinnar. Hún segir að einhugur hafi verið meðal nefndarmanna að leggja til að eftirtalin verði kjörin í stjórn:
- Hugh Short, stjórnarformaður
- Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarmaður
- Jón Óttar Birgisson, stjórnarmaður
- Jóhannes Þorsteinsson
- Sigríður Olgeirsdóttir
Auk Hugh Short, Hrundar Rudolfsdóttur og Jóns Óttars Birgissonar sitja Kevin Payne, fjárfestingarstjóri hjá Pt. Capital, og Tina Pidgeon, sjálfstæður ráðgjafi sem tengist einnig bandaríska sjóðnum, í stjórn Nova í dag.
Í skýrslu nefndarinnar segist hún hafa metið það svo að æskilegt væri að tveir nýir stjórnarmenn yrðu tilnefndir í stjórn til að tryggja fjölbreytileika. Einnig hafi hún horft til þess að meirihluti stjórnarmanna sé óháður félaginu.
Hugh, sem er framkvæmdastjóri Pt. Capital, stærsta einstaka hluthafa Nova, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í október að fjárfestingarfélagið frá Alaska væri opið fyrir því að gefa eftir sæti í stjórninni.
Jóhannes Þorsteinsson starfar í dag sem yfirmaður fjárstýringar T-Mobile í Bandaríkjunum, þar sem hann ber ábyrgð á allri fjármögnun fyrirtækisins. Jóhannes starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Deutsche Bank sem framkvæmdastjóri í þrettán ár.
Sigríður Olgeirsdóttir hefur verið stjórnandi í hugbúnaðar- og hátæknigeiranum og Íslandsbanka. Hún var sviðsstjóri þjónustu hjá Völku árin 2019-2021. Þar áður var hún framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka árin 2010-2019. Hún hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra Ax hugbúnaðarhúss, forstjóra Humac ásamt því að stofna og byggja upp Tæknival í Danmörku. Sigríður hefur setið í stjórn Haga frá því í júní síðastliðnum.