Hagnaður sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans, nam 448 milljónum króna á fyrri hluta ársins samanborið við 602 milljón fyrir sama tímabil árið áður. Hagnaðurinn dróst því saman um fjórðung á milli ára. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.

Hreinar rekstrartekjur námu 1.059 milljónum króna á fyrri hluta ársins samanborið við 1.361 milljón króna fyrir sama tímabil árið áður. Þar munaði helst um mikinn viðsnúning á hreinum fjármunatekjum á milli tímabila, en félagið var með hrein fjármagnsgjöld upp á 230 milljónir króna á fyrri helmingi árs 2022 samanborið við 234 milljónir í fjármagnstekjur á sama tímabili í fyrra.

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, segir í tilkynningu að erfiðar markaðsaðstæður á verðbréfamörkuðum á fyrri árshelmingi hafi litað afkomuna að þessu sinni. Umsýsluþóknun og árangurstengdar þóknanir hækkuðu hins vegar um 15% milli ára og námu 1,28 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins.

Rekstrargjöld voru tæpar 500 milljónir á tímabilinu og drógust saman um rúmar 100 milljónir milli ára. Laun og launatengd gjöld námu 329 milljónum en starfsmenn félagsins í lok júní voru 22 talsins og voru meðallaun þeirra 1,85 milljónir á mánuði.

3,4 milljarða eigið fé

Eigið fé félagsins í lok júní var 3.417 milljónir króna samanborið við tæpa sex milljarða í árslok 2021, en félagið greiddi Landsbankanum 3 milljarða arðgreiðslu í maí síðastliðnum. Eiginfjárhlutfall Landsbréfa var 76,95% við lok tímabilsins, en til samanburðar var hlutfallið 89,76% í lok ársins 2021.

Alls voru um 20 þúsund hlutdeildarskírteinishafar í sjóðum Landsbréfa og voru eignir í eigna- og sjóðastýringu samtals um 457 milljarðar króna í lok tímabils.

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa:

„Töluvert umrót hefur verið á mörkuðum á árinu. Á sama tíma og áhrif Covid heimsfaraldursins eru að fjara út hafa styrjaldarátök í Úkraínu og miklar verðhækkanir á hrávörumörkuðum haft mikil áhrif á fjármálamarkaði. Verðbólga hefur vaxið hratt síðustu mánuði og gildir það jafnt um Ísland og önnur lönd bæði austan hafs og vestan. Það eru því krefjandi tímar á eignamörkuðum um þessar mundir og skiptir miklu máli að vandað sé til verka við ávöxtun fjármuna. Það er verkefni sem starfsfólk Landsbréfa tekur alvarlega, enda hafa Landsbréf um árabil skilað fjárfestum í sjóðum félagsins góðri ávöxtun og reynslumikið starfsfólk félagsins leggur sig fram við að standa undir því trausti sem vaxandi fjöldi sjóðfélaga sýnir Landsbréfum.“