Samkeppniseftirlitið tapaði 44,7 milljónum króna árið 2023, samanborið við 17,7 milljóna króna hagnað árið 2022. Heildartekjur námu 581 milljón en þar af voru fjárveitingar ríkissjóðs færðar til tekna upp á 574 milljónir, sem er 20 milljóna króna aukning frá fyrra ári.
Á sama tíma námu heildargjöld 503 milljónum en mestu munaði um laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað. Alls nam sá kostnaðarliður 503,3 milljónum og jókst um 11,8% milli ára. Á sama tíma jókst annar rekstrarkostnaður um 15,4% og nam 119,2 milljónum.
Ársverk voru 26,7, samanborið við 25,6 árið 2022, en stofnunin hefur síðan gripið til aðhaldsaðgerða og er gert ráð fyrir að ársverk árið 2024 verði 24,5. Ónýttar og ofnýttar fjárheimildir stofnana og ráðuneyta flytjast milli ára. Í lok árs 2022 námu ónýttar fjárheimildir Samkeppniseftirlitsins 17 milljónum króna en í lok árs 2023 var staða fjárveitinga neikvæð um tæplega 28 milljónir.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. janúar 2025.