Frá 9. september hafa 450 flóttamenn komið til landsins. Það er mikil aukning frá sumarmánuðum. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) hefur undanfarna mánuði útvegað húsnæði fyrir um 1.600 manns á flótta. Flestir flóttamenn hafa komið frá Úkraínu.

Aðeins 67 hafa flust úr fyrsta úrræði á sama tíma frá 9. september. Því óskuðu stjórnvöld eftir því að Rauði krossinn myndi opna fjöldahjálparstöð. Tókst á einum sólarhring að útbúa skrifstofuhúsnæði á vegum ríkisins í Borgartúni með þeim hætti að unnt að væri að taka á móti fólki til skammtímadvalar.

Margfalt fleiri flóttamenn

Síðustu mánuði hefur fjöldi flóttafólks á Íslandi margfaldast. Ríkið hefur yfir gistirými fyrir 1.200 manns að ráða í svokölluðu fyrsta úrræði, þar sem gert er ráð fyrir að fólk dvelji í að hámarki átta vikur.