Mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á árunum 2020-2022 námu alls um 450 milljörðum króna, eða 4,5% af landsframleiðslu Íslands á þessu tímabili. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu sem fjármálaráðuneytið hefur unnið um viðbrögð við faraldrinum.
„Með [mótvægisaðgerðunum] tókst að varðveita kaupmátt heimila svo innlend eftirspurn hélst sterk, auk þess að koma í veg fyrir fjölda gjaldþrota og atvinnumissi. Hvort tveggja ruddi brautina fyrir kröftugan efnahagsbata sem hófst árið 2021,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.
Ráðuneytið segir að aðgerðirnar hafi í megindráttum verið sambærilegar aðgerðum nágrannaríkja og „lögðust á sveif með sterku sjálfvirku viðbragði skattkerfis og atvinnuleysisbóta“.
Af þessum 450 milljörðum höfðu um 320 milljarðar bein áhrif á afkomu ríkissjóðs, hvort sem var í formi útgjaldaauka eða minni skattheimtu. Aðrar aðgerðir sem komu ekki fram með beinum hætti í afkomu hins opinbera voru s.s. skattfrestanir, ríkistryggð lán, ábyrgðir og heimildir til úttektar séreignarsparnaðar.
99% fyrirtækja sem nutu stuðnings enn starfandi
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar fólust m.a. í sér stuðning við fyrirtæki og heimilum í fjárhagsvanda m.a. með styrkjum, ríkistryggðum lánum, skattfrestunum og tímabundnum skattalækkunum auk hlutabótaleiðarinnar og ráðningastyrkja.
Í skýrslunni segir að nær öll fyrirtæki í rekstrarvanda sem nutu stuðnings stjórnalda séu enn starfandi eða um 99,3%.
Svara síðar hvort brugðist var við af of miklum krafti
Dregið var úr stuðningsaðgerðum um mitt ár 2021. Skýrsluhöfundar segja að þá hafi hratt batnandi atvinnuástand og mikill uppsafnaður sparnaður heimila leitt af sér sterka eftirspurn. Verðbólga hafi farið vaxandi og verið nokkuð yfir markmiði árið 2021.
„Þróunin var fyrst og fremst rakin til tímabundinna framboðstruflana á alþjóðlegum virðiskeðjum vegna framgangs faraldursins og sóttvarnatakmarkana. Búist var við því að framboðshnökrarnir tækju enda og að verðbólguþrýstingur myndi þar með minnka snemma á árinu 2022. Sú varð þó ekki raunin.“
Skýrsluhöfundar benda á að auk hækkandi húsnæðisverð hafi framboðstruflanir og hratt vaxandi umsvif hér á landi hafti mikil áhrif á verðbólgu. Til viðbótar hafi innrás Rússa í Úkraínu haft mikil áhrif á hagþróunina.
„Þeirri spurningu verður síðar svarað hvort ríkissjóðir og seðlabankar hafi, eftir á hyggja, brugðist við faraldrinum af of miklum krafti og dregið of seint úr stuðningi við eftirspurn, ekki síst ef framboðsvandinn dró varanlega úr framleiðslugetu.
Ef það reynist rétt var misskilningur hagstjórnaraðila sá að verðhækkanirnar hefðu að mestu mátt rekja til rýrnunar framleiðslugetu hagkerfisins í stað tímabundinna framboðshnökra og aukinnar álagningar fyrirtækja.“