Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 4,7 milljarða króna í fyrra, samanborið við tæplega 5 milljarða halla árið 2023. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 10,7 milljarða króna, samanborið við halla upp á 3,4 milljarða árið áður.

Borgin birti ársreikning fyrir 2024 í hádeginu.

Í tilkynningu borgarinnar er jákvæður viðsnúningur í rekstri A-hluta m.a. rakinn til þess að tekjur jukust um 10,2% á meðan rekstrargjöld jukust um 7,6% án afskrifta og breytinga á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga.

Lífeyrisskuldbinding A-hluta lækkaði á milli ára og skilaði tekjufærslu að fjárhæð 847 milljónir króna en áætluð var gjaldfærsla um 2,1 milljarð. Jákvætt frávik nemur því um 2,9 milljörðum króna, að því er segir í tilkynningunni. Borgin segir fjárhagsáætlanir að öðru leyti hafa gengið eftir að mestu leyti.

„Góð ávöxtun var af eignum R-deildar Brúar lífeyrissjóðs leiddi til að tryggingarfræðileg skuldbinding lækkaði um 2,3 ma.kr. Í desember voru undirritaðir nýir kjarasamningar sem voru fyrir utan tryggingarfræðilega matið. Þar sem þessar launahækkanir tilheyrðu árinu 2024 voru áhrifin á skuldbindinguna metin og gerð varúðargjaldfærsla upp á 1,2 ma.kr. í ársreikningi. Gjaldfærsla A-deildar Brúar lífeyrissjóðs nam 209 m.kr.“

Stöðugildi A-hluta voru að meðaltali 8.606 á árinu 2024, samanborið við 8.575 árið 2023. Samanlagður fjöldi stöðugilda A-hluta og B-hluta skv. ábyrgðarhluta Reykjavíkurborgar 2024 var 9.760.

Hvað varðar afkomu A- og B-hlutans, sem var 3 milljörðum betri en áætlað var, að ásamt A-hlutanum hafi Faxaflóahafnir, Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Strætó öll skilað betri niðurstöðu en gert hafði verið ráð fyrir. Afkoma Orkuveitunnar var 2,9 milljörðum umfram áætlanir og afkoma Faxaflóahafna var 815 milljónum umfram. Afkoma Sorpu og Félagsbústaða var hins vegar undir áætlun.

Skuldaviðmið A- og B-hluta án Orkuveitu Reykjavíkur lækkar milli ára og var 104% í árlok 2024 en var 110% árið 2023.

Heildareignir A- og B-hluta námu 979 milljörðum króna í árslok 2024. Heildarskuldir ásamt skuldbindingum námu 525 milljörðum og eigið fé nam 454 milljörðum.

„Reykjavíkurborg er sterkt sveitarfélag í örum vexti þar sem áhersla er á að skapa græna borg þar sem við öll getum fundið okkur stað og fundið að við skiptum öll máli” segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri.

„Það er gleðilegt að sjá rekstur Reykjavíkurborgar þróast í betri átt en áætlanir gerðu ráð fyrir, ég vil þakka starfsfólki borgarinnar og félögum mínum í stjórn borgarinnar.”