Hugbúnaðarfyrirtækið 50skills tapaði 107,2 milljónum króna í fyrra í samanburði við 27,3 milljón króna tap árið áður. Rekstrartekjur félagsins í fyrra námu 239 milljónum króna og var eigið fé jákvætt um 78,5 milljónir.
Meðalfjöldi ársverka fjölgaði úr 9,8 í 13,8 milli ára en í skýrslu stjórnar segir að árið í fyrra einkenndist af umtalsverðum fjárfestingum í þróun á nýjum lausnum félagsins.
Að mati stjórnar gefa fyrstu skref í markaðsstarfi fyrirheit um vöxt og framgang á árinu 2024.
Handbært fé félagsins í árslok var 135 milljónir en tekin voru ný langtímalán upp á 90 milljónir með útgáfu breytanlegs skuldabréfs sem greiðist í einu lagi og er með eindaga í júní 2025, ef breytiréttur hvorki virkjast né er nýttur fyrir þann tíma.
Samkvæmt ársreikningi hefur félagið tryggt sér fjármagn til rekstrar árið 2024 og stefnir á að afla aukins hlutafjár á árinu 2025.