Íslensk bílaumboð virðast koma vel undan Covid-19 faraldrinum en þrjú af fimm stærstu bílaumboðum landsins, Brimborg, Toyota og Hekla, högnuðust samtals um nærri 5,2 milljarða króna á síðasta ári. Til samanburðar nam samanlagður hagnaður umræddra bílaumboða nærri 3 milljörðum króna árið 2021 og jókst samanlagður hagnaður þeirra því um 72% á milli ára. Bílaumboðin þrjú veltu alls nærri 86 milljörðum króna í fyrra en árið áður nam samanlögð velta þeirra nærri 63 milljörðum króna. Arðgreiðslutillögur bílaumboðanna vegna síðasta árs hljóða samtals upp á nærri þrjá milljarða króna. Toyota hyggst greiða út 2 milljarða króna til hluthafa sinna, Hekla 750 milljónir og Brimborg 120 milljónir.

Hagnaður félaganna skiptist þannig að Toyota umboðið, sem er rekið undir tveimur dótturfélögum, hagnaðist um 2,9 milljarða króna, Hekla um 1,3 milljarða og Brimborg um 980 milljónir. Toyota félögin tvö veltu samtals 38,7 milljörðum króna, Brimborg 29,9 milljörðum og Hekla 17,1 milljarði.

Eigna- og eiginfjárstaða bílaumboðanna var með miklum ágætum um síðustu áramót. Eignir Brimborgar námu um 19,5 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið fé um 5,5 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var því 28%. Eignir Heklu námu um 4,4 milljörðum og eigið fé um 2,2. Eiginfjárhlutfall var 48% í árslok 2022. Toyota umboðið á Íslandi er eins og fyrr segir rekið undir tveimur dótturfélögum, Toyota á Íslandi ehf. og TK bílar ehf. Eignir Toyota á Íslandi námu um 8 milljörðum króna í lok síðasta árs meðan eignir TK bíla námu 3,6 milljörðum. Eigið fé Toyota á Íslandi nam svo 4,1 milljarði króna og eigið fé TK bíla 1,3 milljörðum. Eiginfjárhlutfall fyrrnefnda félagsins stóð því í 52% í lok síðasta árs meðan eiginfjárhlutfall þess síðarnefnda var 34%.

Árið 2020 var afkoma og velta bílaumboðanna mun dræmari en í fyrra og árið 2021, enda setti Covid-19 heimsfaraldurinn verulegt strik í reikninginn það ár. Bílaleigur eru einn stærsti viðskiptavinur bílaumboðanna og því bitnaði það eðlilega á afkomu þeirra að bílaleigur héldu að sér höndum meðan skrúfað var fyrir ferðamannastrauminn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út miðvikudaginn 5. apríl. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.