Kerecis lauk á dögunum 60 milljóna dala hlutafjárútboði, eða sem nemur 8,2 milljörðum króna, þar sem Kirkbi, fjárfestingarfélag dönsku Lego-fjölskyldunnar lagði fram 5,5 milljarða króna. Kerecis tilkynnti í dag að fyrirtækið hafi sótt 40 milljóna dala, eða um 5,5 milljarða króna, fjármögnun til viðbótar við hlutafjárútboðið.

Samhliða útboðinu var 10 milljóna dala víkjandi láni umbreytt í hlutafé. Þá var lánalína fyrirtækisins hjá Silicon Valley Bank framlengd og stækkuð upp í 30 milljónir dala.

Í kjölfar fjármögnunarlotunnar nemur markaðsvirði Kerecis 620 milljónum dala eða sem nemur 85 milljörðum króna samkvæmt tilkynningunni.

Sjá einnig: Legókallarnir komnir til Ísafjarðar

Á aðalfundi Kerecis fyrir tveimur vikum kom fram að eftir fjármögnunina stefni fyrirtækið á að fjölga sölumönnum úr 150 í 240. Þá er áætlað að tekjur fyrirtækisins, sem framleiðir sáraroð úr þorski á Ísafirði, verði í kringum 70 milljónir dala á yfirstandandi rekstrarári sem lýkur 30. september, samanborið við 29 milljónir dala á síðasta rekstrarári. Kerecis stefnir á að tekjur fjárhagsársins 2023 verði um 130 milljónir dala og árið 2024 verði þær yfir 200 milljónir dala, eða yfir 27 milljarða króna

„Kerecis er mjög skapandi fyrirtæki sem hefur byggt upp sterkan rekstur með því að umbreyta úrgangsefnum í einstakar lækningavörur,“ segir Niklas Sjöblom, framkvæmdastjóri hjá Kirkbi sem var kjörin í stjórn Kerecis á aðalfundinum. „Við erum spennt fyrir því að styðja við frekari vöxt og stefnumótandi markmið um að bæta útkomu sjúklinga.“

„Þessi fjármögnun og nýja samstarfið við Kirkbi er mikið framfaraskref fyrir Kerecis og fjárfesting Kirkbi og annarra þátttakenda hvetur okkur áfram,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis. „Með áframhaldandi vexti getum við aðstoðað þúsundir fleiri sjúklinga víða um heim með sjálfbæru vörunum okkar. Það er markmið okkar að verða fremst í flokki í heiminum þegar kemur að meðhöndlun á sköðuðum vef (e. tissue regeneration) með því að nýta úrræði náttúrunnar.“