Umfangsmesta rafmagnsleysið í sögu Spánar leiddi til nærri 400 milljóna evra höggs, eða sem nemur tæplega 60 milljörðum króna, fyrir spænska hagkerfið samkvæmt bráðabirgða mati stærsta innlenda bankans, CaixaBank.
Neysluútgjöld spænskra heimila drógust saman um 34% þann 28. apríl síðastliðinn, þegar rafmagnslaust varð á stórum hluti meginlands Spánar í nokkra klukkutíma. Matið byggir á kortaveltu, netverslun og úttektum í hraðbönkum.
Í umfjöllun Bloomberg segir að aukin útgjöld í kjölfar rafmagnsleysisins hafi vegið að hluta á móti ofangreindum samdrætti. Bankinn áætlar að nettó samdráttur á neysluútgjöldum 28. apríl hafi því verið um 15% miðað við eðlilegar aðstæður.
„Við áætlum að rafmagnsleysið muni hafi einskiptisáhrif á ársfjórðungslega landsframleiðslu upp á minna en 0,1 prósentustig, eða minna en 400 milljónir evra,“ segir í greiningu bankans.
Rafmagnið sló út kl. 12:30 á staðartíma og voru um 50 milljónir manns á Spáni og í Portúgal án rafmagns um tíma. Stjórnvöld á Spáni eru enn að rannsaka hvað olli rafmagnsleysinu sem leiddi til mikillar röskunar á almenningssamgöngum, fjarskiptum og í smásölu.
Spáð er að spænska hagkerfið muni stækka um 2,6% í ár og um 2,2% á næsta ári, að því er segir í umfjöllun Bloomberg. Hagvöxtur á Spáni hefur verið meiri en víðast hvar á evrusvæðinu á undanförnum árum.