Það sem af er þessu ári hafa íslenskir sprotar hlotið að minnsta kosti 425 milljóna dala eða 58 milljarða króna fjárfestingu og styrki sem gerir það að stærsta ári sögunnar á þann mælikvarða, svo að miklu munar, þrátt fyrir að vera aðeins rúmlega hálfnað.

Þau 22 fyrirtæki sem Viðskiptablaðið tók saman fengu sín á milli 308 milljónir dala í fjárfestingu, frá einni og hálfri milljón dala til tónlistarmiðlunarfyrirtækisins Overtune til 60 milljóna dala lokaðs hlutafjárútboðs lækningavörufyrirtækisins Kerecis.

Því til viðbótar fékk kolefnisföngunarfyrirtækið Carbfix síðan stærsta styrk til nokkurs íslensks fyrirtækis frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins, upp á 117 milljónir dala.

Ekki er haldið kerfisbundið utan um heildarfjárfestingu í íslenskum sprotum en samantekt tæknimiðilsins Northstack hljóðaði upp á 161 milljón dala í fyrra og 223 milljónir árið þar áður, það stærsta frá upphafi samkvæmt þeirri greiningu.

Jafnvel að undanskildum styrk Carbfix og fjárfestingu til þriggja sprota sem Íslendingar stofnuðu og stýra en starfa á erlendri grund nemur samtalan í ár 231 milljón dala, og er því þegar um stærsta ár Íslandssögunnar að ræða.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.