66°Norður hefur lokað verslun sinni á Strikinu í Kaupmannahöfn, að því er kemur fram í tilkynningu. „Við ákváðum að endurnýja ekki leigusamninginn á Strikinu sem lýkur nú um mánaðamótin en húsnæðið var orðið of lítið og óhagkvæmt fyrir reksturinn í núverandi mynd,“ segir Aldís Arnardóttir yfirmaður verslunarsviðs 66°Norðurs.
Um er að ræða lið í áherslubreytingum fatamerkisins í Danmörku. 66°Norður opnaði nýlega verslun á þriðju hæð verslunarmiðstöðvarinnar Illum og bætti sýnileika vörumerkisins í aðalverslun þess á Sværtegade í Kaupmannahöfn.
„Þessar áherslubreytingar hafa með staðsetningu, vöruúrval og stærð verslana að gera. Jafnframt hefur verið lögð aukin áhersla á endursölu til verslana víðar í Danmörku en endursala hefur aukist um 200% á milli ára.“
66°Norður opnaði sínar fyrstu verslanir í Danmörku árin 2014 og 2015. Aldís segir að vöxturinn í Danmörku hafi verið góður að undanförnu.
„Aðalverslun okkar á Sværtegade gengur mjög vel og jókst salan þar um 58% á milli ára. Ennfremur gengur salan í Illum mjög vel og við teljum að með þessum tveimur verslunum í Kaupmannahöfn séum við að ná vel til danskra viðskiptavina og einnig til ferðamanna sem versla mikið í Illum,“ segir Aldís.
66°Norður opnaði nýja flaggskipsverslun á Regent Street í London í desember síðastliðnum. Auk þess opnaði fatamerkið nýja verslun við Austurhöfn síðasta sumar.