Meirihluti landsmanna er andvígur sameiningu Íslandsbanka og Arion banka ef marka má könnun Maskínu. Samkvæmt henni eru aðeins tæp 17% hlynnt sameiningunni á meðan 67% eru andvíg. Enn færri töldu að ávinningur af samrunanum yrði mikill fyrir almenning, eða 11%. Um 32% töldu áhrifin lítil og 46% töldu þau alls engin.

Stjórn Arion banka lýsti yfir áhuga um að hefja samrunaviðræður við stjórn Íslandsbanka þann 14. febrúar síðastliðinn. Sagðist bankinn sjá mikil tækifæri í samruna bankanna fyrir viðskiptavini, hluthafa og íslenskt hagkerfi.

Í gærkvöldi sendi Íslandsbanki tilkynningu þess efnis að stjórn bankans hefði ákveðið að hafna boðinu þar sem hún taldi ólíklegt að samruninn yrði samþykktur af Samkeppniseftirlitinu. Yfir 10 ára tímabil næmi beinn sparnaður íslenskra heimila 50 milljörðum króna fyrir utan annan ávinning og sparnað sem af samrunanum myndi hljótast.

Könnun Maskínu fór fram dagana 21. til 26. febrúar, áður en endanlegt svar lá fyrir frá Íslandsbanka. Alls bárust svör frá ríflega 1600 einstaklingum.

Lagðar voru fram tvær spurningar; annars vegar: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) sameiningu Íslandsbanka og Arion banka?, og hins vegar: Telur þú að ávinningur af sameiningu Íslandsbanka og Arion banka verði mikill, lítill eða enginn fyrir almenning?

Hvað fyrri spurninguna varðar voru konur líklegri en karlar til að vera hlynntar sameiningunni, eða 19,2% á móti 12,8%. Þá var yngri kynslóðin jákvæðust, 22,6% hjá 18-29 ára en t.d. 12,1% hjá 60 ára og eldri. Lítill munur var á afstöðu eftir menntun og lítil fylgni eftir búsetu. Hvað heimilistekjur varðar voru þeir sem hlynntastir voru annars vegar með lægri tekjur en 550 þúsund og hins vegar þeir sem voru með 1.600 þúsund eða hærri tekjur.

Mesti munurinn birtist þegar spurt var hvaða flokk svarendur myndu kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins voru lang jákvæðastir gagnvart sameiningu en 33,7% sögðust hlynntir sameiningu á móti 51,1% sem sögðust andvígir. Næst kemur Framsóknarflokkurinn, 22% sögðust hlynntir en 57,1% andvígir. Kjósendur Pírata, Sósíalistaflokksins og VG voru minnst hlynntir sameiningu og sögðust á bilinu 80-85% andvígir sameiningu.

Hvað seinni spurninguna varðar vöru svörin svipuð þegar kom að kyni, búsetu og menntun. Einstaklingar á aldrinum 18-29 ára töldu þó að ávinningurinn af sameiningu yrði meiri en aðrir aldurshópar og sömu sögu var að segja af þeim sem voru með heimilistekjur upp á 1.600 þúsund krónur eða hærri.

Aftur birtist mesti munurinn þegar spurt var hvaða flokk svarendur myndu kjósa. Um 24% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn töldu ávinningin af sameiningu mikinn, 29,4% töldu hann lítinn og 28,3% töldu hann alls engann.

Til samanburðar taldi enginn sem myndi kjósa VG og Sósíalistaflokkinn að ávinningurinn yrði mikill og 65% töldu að ávinningurinn yrði enginn. Aðeins 1,8% þeirra sem myndu kjósa Pírata töldu ávinninginn mikinn en 50% töldu hann enginn, og aðeins 2,5% þeirra sem myndu kjósa Flokk fólksins töldu ávinninginn mikinn á meðan 65,3% töldu hann enginn.