Heildarfjöldi skráðra gistinátta ferðamanna á Íslandi var um fimm milljónir árið 2021. Til samanburðar var fjöldinn 3,3 milljónir árið 2020. Þetta kemur fram í greiningu Hagstofunnar. Því jókst heildarfjöldi gistinátta um 52,1% á milli ára.
Gistinóttum fjölgaði um allt land á milli ára, þar af mest í Suðurnesjum þar sem þær tvöfölduðust. Á Vestfjörðum og Austurlandi fjölgaði gistinóttum um þriðjung, en á höfuðborgarsvæðinu um 36,5%.
Í greiningu Hagstofunnar segir að sérstaklega megi merkja fjölgun erlendra ferðamanna á milli ára, en vegna faraldursins var óvenju stór hluti gistinátta árið 2020 vegna innlendra ferðamanna. Erlendum gistinóttum fjölgaði þannig um 68,1% á milli ára og voru þær um 3,1 milljónir í fyrra. Til samanburðar fjölgaði innlendum gistinóttum um 32,2% á milli ára.
Takmarkanir á samgöngum sem settar voru á um miðjan mars 2020 endurspeglast í breytingum á milli ára þegar gistinætur eru skoðaðar eftir mánuðum. Á fyrsta ársfjórðungi 2021 var mikill samdráttur frá fyrra ári, en aukning frá fyrra ári það sem eftir lifði 2021. Þannig voru gistinætur síðustu mánuði ársins allt að sexfalt fleiri en þær voru árið 2020.