20 af 28 félögum á aðalmarkaði hyggjast greiða út arð til hluthafa á þessu ári, sem gerir 71% skráðra félaga. Þannig hafa átta félög gefið það út að þau hyggjast ekki greiða arð á þessu ári. Þar á meðal eru Sýn, Kaldalón og Iceland Seafood.
Flugfélögin Icelandair og Play munu heldur ekki greiða arð til hluthafa en þau skiluðu bæði tapi á liðnu ári, Icelandair tapaði 2,8 milljörðum króna, en Play 9,1 milljarði.
Líftæknifélögin Oculis og Alvotech og málmleitarfélagið Amaroq munu heldur ekki greiða arð á þessu ári.
Félögin þrjú hafa verið í miklum vaxtarfasa, en samkvæmt könnun Viðskiptablaðsins meðal markaðsaðila, sem framkvæmd var í byrjun árs 2025, ríkir hvað mesta trúin gagnvart þessum þremur félögum á árinu.
Nærri helmingur svarenda könnunarinnar spáði því að Alvotech yrði það félag sem hækkar mest á markaði á árinu 2025.
Rúmlega fimmtungur svarenda spáði því að Oculis hækki mest allra félaga á markaði á árinu, en félagið var skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar í apríl í fyrra og varð þar með tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Tæplega 7% svarenda spáðu því síðan að Amaroq myndi hækka mest allra félaga á aðalmarkaði á árinu 2025.
Þrjú félög greiða oftar en einu sinni
Flest þeirra félaga sem greiða út arð til hluthafa á árinu greiða hann út í einni greiðslu. Á mörkuðum erlendis er algengt að skráð félög greiði út arð í nokkrum skrefum, oft ársfjórðungslega.
Hér á landi hefur það verið sjaldgæfara, en þó hafa þrjú félög ákveðið að dreifa arðgreiðslunum á árinu 2025.
Skel mun greiða út arð í tveimur hlutum: þrjá milljarða króna í mars og aðra þrjá milljarða í október. Reitir hyggjast greiða 2,20 krónur á hlut í apríl og aðrar 1,50 krónur á hlut í september.
JBT Marel mun greiða arð ársfjórðungslega, 0,1 Bandaríkjadal á hlut í hvert skipti, sem jafngildir samtals 55 krónum á hlut yfir árið. Þar að auki greiðir Kvika banki út arð til hluthafa í tveimur greiðslum, fyrst 2,05 milljarða króna, sem nemur 4,72 krónum á hlut, og síðan sérstaka 20 milljarða króna greiðslu vegna sölunnar á TM.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.