Eimskipafélag Íslands hefur ákveðið að skjóta ákvörðun skattayfirvalda um að félaginu beri að greiða tekjuskatt af hagnaði skipa sem skráð eru erlendis, til yfirskattanefndar. Í desember komst skattstjóri að þeirri niðurstöðu að félaginu bæri að greiða 0,2 milljónir evra sem samsvarar um tæpum 25 milljónum króna í skatt vegna hagnaðar af skipum félagins á árunum 2013 og 2014.

Ef Eimskip tapa málinu mun félagið einnig þurfa að gjaldfæra 5,4 milljónir evra í skattgreiðslur vegna hagnaðar af skipunum eða sem nemur tæpum 700 milljónum króna. Félagið mun þó aðeins þurfa að greiða um 0,7 milljónir evra eða tæpar 87 milljónir króna þar sem það á inni skattalegt tap sem mun koma til lækkunar á gjaldfærðum skatti.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskip, segir að eðlilegt hafi verið að skjóta málinu til yfirskattanefndar enda séu skipin skráð erlendis m.a. í Færeyjum þar sem greidd hafa verið opinber gjöld af þeim, svokölluð tonnagjöld sem greidd eru árlega og miðast við þyngd skipanna. Því sé það afstaða félagsins að ekki ætti að taka af þeim tekjuskatt á Íslandi.

Ástæðuna fyrir því að skipin eru skráð erlendis segir Ólafur vera óhagstætt umhverfi til skráningar hér á landi. „Skráning skipa á Íslandi er með þeim hætti að það er óhagkvæmt að skrá skip hérlendis. Við höfum bent á það í mörg ár að skráningarreglur íslenskra farskipa þurfa að breytast svo hægt sé að skrá skipin á Íslandi. Það færi miklu betur á því að reglurnar væru með sama sniði og til að mynda í Færeyjum, þá myndu svona mál ekki koma upp. Þetta er einfaldlega spurning um að félög njóti sambærilegs rekstrarumhverfis á við það sem gerist annars staðar í heiminum.“