Áætlaður hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi var 7,3% miðað við sama tímabil í fyrra. Áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu var um 997,8 milljarðar króna á fjórðungnum samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga. „Útflutningur var helsti drifkraftur hagvaxtar en að honum frátöldum hafði einkaneysla mest áhrif,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Á fyrstu níu mánuðum ársins mælist verg landsframleiðsla (VLF) að raunvirði um 7,4% meiri en á sama tíma í fyrra en um 3,7% meiri ef miðað er við sama tíma árið 2019 áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

Útflutningur jókst um 23%

Áætlað er að vöxtur þjóðarútgjalda á þriðja ársfjórðungi miðað við sama ársfjórðung í fyrra hafi reynst 4,8% og af undirliðum þeirra jókst einkaneysla mest eða um 7,2% að raunvirði, fjármunamyndun um 2,2% og samneysla um 1,8%.

Áætlað er að vöxtur útflutnings á þriðja ársfjórðungi hafi numið 22,9% sem má að miklu leyti rekja til útfluttrar þjónustu. Að sama skapi jókst innflutningur um 18% miðað við sama tíma fyrir ári.

„Á þriðja ársfjórðungi varð áframhald á kröftugum vexti útflutnings líkt og á undanförnum fimm fjórðungum,“ segir í frétt Hagstofunnar. Líkt og undanfarna ársfjórðunga er vöxturinn rakinn til útfluttrar þjónustu sem jókst um 45,6% að raunvirði frá fyrra ári.

Á þriðja ársfjórðungi er áætlað að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar hafi mælst jákvætt um 1,9% og að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði hafi numið um 4,0% af VLF samanborið við 2,1% á sama ársfjórðungi í fyrra.