Sam-félagið, félag utan um rekstur Sambíóanna, var rekið með 74 milljóna króna tapi en árið áður nam tap félagsins 72 milljónum.

Rekstur kvikmyndahúsanna hefur verið nokkuð þungur og hefur félagið verið rekið með tapi á hverju ári frá árinu 2019. Samanlagt tap áranna 2019-2023 nemur 453 milljónum. Þess ber þó að geta að heimsfaraldursárið 2020 stendur undir meira en helmingi uppsafnaðs taps en það ár nam tapið 259 milljónum.

Rekstrartekjur námu tæplega 1,3 milljörðum og jukust um 298 milljónir, eða 31%. Eignir námu 472 milljónum, skuldir 865 milljónum og eigið fé var neikvætt um 393 milljónir í lok síðasta árs.

Stórmyndirnar Barbie og Oppenheimer voru báðar í sýningu hjá Sambíóunum árið 2023 og aðsóknin mikil.

Börn stofnanda Sambíóanna, Árna Samúelssonar, þau Alfreð Árnason, Björn Árnason og Elísabet Árnadóttir eiga hvert um sig þriðjungshlut í félaginu.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.